29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. annars minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg mun ekki flytja hjer langa tölu fyrir tómum stólum, en vil þó gera nokkra grein fyrir brtt. þeirri, sem jeg hefi borið hjer fram. Jeg vil geta þess, að fyrst og fremst er jeg þeirrar skoðunar, að kjördagur skuli vera á sunnudegi, og að þar fer jeg eftir góðu fordæmi menningarþjóðanna. Jeg lít svo á, að fáum þjóðum muni vera eins mikil nauðsyn að hlúa að landi sínu og okkur, sem hýrumst hjer í strjálbýlinu. Þess vegna vil jeg láta kosningar fara fram á hvíldardegi, enda er þá tekið fult tillit til hins vinnandi lýðs þessa lands. Það er vitanlegt öllum, sem til þekkja, að á hvíldardögum eru fjölsóttar skemtanir, og af því má álykta, að góð aðsókn verði einnig á kjörstöðunum. Báðir aðalflokkar þingsins hafa kosið að færa kjördaginn lengra fram á sumarið, en jeg hefi valið 3. sunnud. septembermánaðar, með tilliti til þess, að þá eru mestu sumarannirnar búnar, eins og t. d. sláttur, síldarvinna og fiskverkun. Vinnan er þá ekki eins föst eins og um háannatíma ársins og mönnum ljettara að loknum heyönnum að hugsa um þjóðmál heldur en endranær. Þetta er reynsla frá fornu fari, því að þá var það lögskylt, að kosningar skyldu fara fram í september. 1 mínu kjördæmi komu fram eindregnar óskir um það að hafa hjeraðskosningar í síðari hluta sept., og það gerði jeg líka. Þá sýndi það sig, að þótt þá væri ekki nema einn kjörstaður, komu kjósendur með raktri tölu úr þeim hreppum, sem fjærst áttu. Þetta sýnir, að þessi tími er vel valinn, og jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að jeg var altaf á móti því að hafa kjördaginn 1. vetrardag, af því að veður eru þá tekin að spillast.

Þá er eitt atriði enn, sem mælir með þessu, og það er, að hjer áður fyr var um þetta leyti þjóðhátíðardagur um alt land, þ. e. a. s. hinn góði og gamli rjettadagur. Síðan ungu fólki hefir tekið að fækka í sveitunum, eru þeir tiltölulega fáir, sem sækja rjettir, nema í þeim hjeruðum, þar sem aðkomumenn úr kaupstöðunum hrúgast að. Því þætti mjer ekki nema eðlilegt, að tekinn væri upp nýr skemtidagur eftir að slætti er lokið, og jeg efast ekki um, að menn myndu sækja tíðir engu síður þennan dag en aðra, sjerstaklega þar sem kjörstaður er oftast á kirkjustöðum. Þess vegna mun jeg við 3. umr. koma fram með brtt. við þessa brtt., þar sem forsrh. er falið að velja um 3. eða 4. sunnudag í sept., því 3. sunnud. getur fallið þann 15. og líka þann 21. sept. 15. sept. mun helst til snemma, en þá mætti líka velja 4. sunnudag. Jeg vil svo ekki fjölyrða frekara um málið, en vona, að brtt. fái góðar viðtökur.