29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

47. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg vildi segja hjer nokkur orð til að mótmæla hv. 2. þm. Árn., sjerstaklega af því að hann segist flytja þessa till. og tala fyrir munn bænda, en það virðist mjer koma úr hörðustu átt. Það er vitanlegt, að þessi dagur er mjög óheppilegur fyrir bændur, því að þá byrja fjallaferðir, sláturferðir og alt það umstang, sem því er samfara. Við þetta bætist svo, að þá þurfa menn oft að fara að bjarga síðustu heyjunum undan eyðileggingu, því að á þessum tíma er veðráttan oft rosaleg og umhleypingasöm. Það getur oft verið vont að þurfa að fara frá heyjum fyrri hluta sumars, en seinni hlutann getur oft staðið svo á, að menn verði að bjarga heyjum sínum, hvað sem liggur við, því að þá er venjulega síðasta tækifærið að ganga þeim úr greipum. Af þessum ástæðum er jeg sannfærður um, að það er hin mesta fjarstæða að koma fram með það að færa kjördaginn til síðari hluta sumars. Jeg mun því fylgja þeim till., sem meiri hl. allshn. hefir borið fram.

Hv. 2. þm. Reykv. mintist á það, að það mundi koma jafnt niður á öllum stjórnmálaflokkum, hvernig viðrar daginn sem kosið er. Þó getur víða hagað svo til um kosningafylgi, að misjöfn sje aðstaða flokka til að sækja kjörfund, eins og t. d. sveita og kauptúna, en þar er flokkaafstaðan oft nokkuð ólík, sem kunnugt er. En óhagstætt veður kemur vitanlega langtum harðara niður á sveitabúum en sjávarþorpa undir þessum kringumstæðum. Með því að leggja alt á vald veðursins er undir hendingu komið, hverjir það verða, sem kosningunni ráða.