29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

47. mál, kosningar til Alþingis

Gunnar Sigurðsson:

1 Jeg hjó eftir því hjá hv. 2. þm. Reykv., að hann taldi það ganga jafnt yfir alla til sveita, það sem vantaði á, að menn gætu sótt almennar kosningar. En það er áreiðanlegt, að þeir verða ofan á, sem geta beitt peningum. Það er mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli í Rangárvallasýslu, þar sem víða hagar svo til, að fátt er í heimili, og enginn hestur, að nú er farið að nota bíla í kosningaferðir. Enda hefir það komið í ljós, að þeir sigra, sem geta notað bíla. Þó að þetta sjeu ekki beinar mútur, er það dálítið óheppilegt.

Jeg er sammála hæstv. forsrh. um það, að sunnudagur sje heppilegur sem kjördagur. Það geta ekki talist nein hátíðaspjöll, þó að kosið sje á sunnudegi. Laugardagur er næstbestur, því að þá geta kosningar haldið áfram fram eftir nóttu, einkum þegar þær fara fram að sumarlagi. Laugardagur á sumri er betri en laugardagur að vetri. Jeg er algerlega ósammála háttv. 2. þm. Árn., en hv. þm. Mýr. hefir nú svarað honum, og sje jeg ekki ástæðu til að endurtaka það. Menn eru ekki búnir að ná inn heyjum sínum 10. september, og þar að auki eru þeir bundnir í fjallferðum og geta því ekki sótt kosningarnar.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.