06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Hæstv. forsrh. hefir lýst yfir því, að þennan nýja kafla frv. verði að endurskoða þegar á næsta þingi, og breyta honum þá eitthvað. Þessu mætti auðveldlega bæta úr strax á þessu þingi, með því að taka málið út af dagskrá og gefa mönnum tækifæri til þess að koma með brtt. Til þess þarf ekki mikinn tíma, en það er síst til þess að flýta fyrir störfum Alþ. að flaustra máli af á einu þinginu og þurfa svo að láta það ganga gegnum sex umr. strax á næsta þingi. Það er alveg meiningarlaust að fara að eyða sex umr. um þetta mál á næsta þingi í staðinn fyrir enga núna. Málið hefir fylgi allra flokka hjer í þessari hv. deild, svo að það er engin hætta á, að það verði látið daga uppi, en menn hafa bara ekki tíma til þess að koma fram með sínar brtt., svo að það er ekki nema eðlilegt, að málið sje tekið af dagskrá. Þá gæti hæstv. forsrh. líka komið fram með þær umbætur á frv., sem hann ber svo mjög fyrir brjósti.