01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

47. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

Það, sem hjer hefir verið borið fram gegn frv. þessu af þeim tveim hv. þm., sem síðast töluðu, að svo margir af verkamönnum og sjómönnum bæjanna væru komnir burtu frá heimilum sínum, þegar kjósa á samkv. frv. þessu, er ekki aðalatriði fyrir mjer, heldur hitt, hve erfitt er að koma mönnum upp í áhuga á þessum málum, einmitt þegar þeir eru hvað mest önnum kafnir. Þá er verið að ljúka mörgum skólum, nemendur o. fl. því að búa sig út í sumarvinnuna. Hlýtur því að stafa af þessu mjög ljeleg kjörfundasókn.

Hvað það snertir að hafa tvo kjördaga á landinu, þá skal jeg taka það fram fyrir mitt leyti, að jeg er slíkri breytingu á kosningalögunum heldur mótfallinn. Og að síðustu vil jeg taka það fram, að þar sem það er ótvírætt, að þungamiðja hins pólitíska valds liggur nú í sveitunum og að gengið er í því efni stórkostlega á rjett kaupstaðanna, og þá sjerstaklega Reykjavíkur, þá vænti jeg þess, að fulltrúar þeirra beiti ekki valdi sínu hjer til þess að vinna kaupstöðunum tjón að þarflausu eða þarflitlu. En það gera þeir, ef þeir samþ. frv. þetta.