01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Þegar athuguð er atkvgr. um frv. þetta við 2. umr., þá er sýnt, að það hefir þann styrk í þinginu, að það hefði með öllu verið hættulaust fyrir hæstv. forseta að láta að orðum hv. þm. Ísaf. um að taka það út af dagskrá rjett í bili, svo að hægt væri að koma að brtt. við það nú við 3. umr. Það hefði því ekki aðeins verið hættulaust, heldur líka sanngjarnt. Jeg veit, að það er sanngirniskrafa fyrir margar sveitir að fá annan kjördag en fyrsta vetrardag, og þá sjerstaklega fyrir þær sveitir, sem liggja á norðurhjara landsins. Jeg trúi nefnilega vel þeim mönnum, sem lýst hafa hættu þeirri, sem af því getur stafað fyrir þær að hafa þann kjördag, sem nú er. Jeg viðurkenni því fyllilega, að sveitirnar eiga sanngirniskröfu í þessum efnum; en hins ber jafnframt að gæta, að kaupstaðirnir eiga líka sanngirniskröfu á því, að kjördagurinn sje ekki færður frá þeim tíma, sem hann er nú, vegna þess, að á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir í frv. að færa kjördaginn á, er alt á tjá og tundri hjá kaupstaðabúum. Fjöldi íbúanna er annaðhvort farinn eða að fara burtu í atvinnuleit. Má því með sanni segja, að hjer sje um sanngirnismál að ræða frá báðum hliðum. Jeg vildi því, að þessum málum yrði þannig skipað, að rjettur hvorugs væri fyrir borð borinn, en það virðist mjer mega eftir till. þeirri, sem hv. þm. Ísaf. sló fram, að hafa kjördagana tvo, annan fyrir sveitirnar, en hinn fyrir kaupstaðina. Mjer þykir því leitt, að sú till. skyldi ekki einu sinni fá að vera rædd. Eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, er hið mest áberandi vald í þinginu frá sveitunum. Það sama vald stytti sveitfestistímann, óefað sveitunum í hag, en til óhags fyrir kaupstaðina. Jeg get nú búist við, að verði haldið lengra áfram á þessari braut, að láta hagsmuni kaupstaðanna altaf lúta í lægra haldi fyrir hagsmunum sveitanna, þá geti það orðið til þess að auka andúð á milli þeirra, og má þá vel vera, að svo færi t. d., að kaupstaðabúar og fulltrúar þeirra hverfi að því ráði að hætta við skiftingu landsins í framfærsluhjeruð og gangi til fylgis við þá stefnu að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði.

Þar sem nú komið er langt fram yfir venjulegt fundarhlje, þá þykist jeg skilja, að hjer eigi að svelta mann þangað til yfir lýkur með þetta mál. Að engum verði hleypt út, fyr en páfinn er kosinn, eins og gert er í Rómaborg, þegar velja skal páfa. Þá sje jeg ekki, að fært sje að halda lengri ræðu nú. En að síðustu vil jeg votta hv. 4. þm. Reykv. samhrygð mína. Hann var að barma sjer yfir því, að hinir frjálslyndu menn í þinginu væru á annari skoðun en hann í þessu máli. Það hlýtur að vera sárt fyrir þennan hv. þm. að horfa á framsóknarliðið greiða atkv. með færslu kjördagsins. Hitt er vitanlegt, að mótmæli hv. þm. og annara hans nóta eru í þessu máli aðeins til málamynda, en ekki af sannfæringu. Þeir ráða yfir stjórninni, sósíalistarnir, og geta hindrað málið, ef þeir vilja.

Honum er til einskis gagns að vera að kenna íhaldsmönnum um það, sem honum þykir aflaga fara. Hjer ráða þeir fóstbræður, framsóknarmenn og sósíalistar, og þeim á hann að kenna um það, sem aflaga fer, en ekki minni hlutanum.