04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Mjer fanst það of langt gengið hjá hv. 6. landsk., þegar hann sagði, að jeg hefði viðurkent rjettmæti þessa máls, því að það gerði jeg alls ekki, heldur sagði jeg, að málið væri mjög ranglátt eins og það lægi fyrir nú í frv. En jeg viðurkendi, að það væri rjettlátt, að t. d. Norðurland fengi annan kjördag en Suðurland. Jeg skoða það því eins og hvert annað ofbeldi þingmeirihlutans, ef hann lætur mál þetta ganga fram óbreytt, þar sem það sviftir fjölda fólks atkvæðisrjetti.

Þá var hv. 6. landsk. að tala um, að það hefði verið rjettara af flokksbræðrum mínum í Nd. að koma fram með brtt. við frv. þetta en vera að stympast á móti því. Jeg býst nú ekki við, að hv. þm. hafi sagt þetta af því að hann hafi ekki vitað, að forseti sá, sem var í forsetasæti þegar mál þetta var síðast á dagskrá í Nd., neitaði að taka málið út af dagskrá, þegar flokksbræður mínir ætluðu einmitt að koma brtt. að við það. Var því ekki um annað fyrir þá að gera en veita því mótspyrnu. (JónJ: Það hefði verið hægt fyrir þá að koma með brtt. fyr). Það er altaf hægt að segja þetta og því um líkt, en þeir o. fl. vonuðu nú í lengstu lög, að jafnranglátt frv. sem þetta yrði ekki samþ., þar sem það skapar meira en helmingi þjóðarinnar miklu erfiðari aðstöðu til þess að neyta kosningarrjettar síns en þörf er á. Líka komu fram í Nd. brtt. frá einum þm. úr sveitakjördæmi, um að hafa kjördaginn í september, en því var hafnað. Var því ekki um neinn samkomulagsgrundvöll að tala í Nd.; öllu slíku var annaðhvort hafnað eða bægt frá með ofbeldi.

Þá sagði hv. þm., að hann tryði því ekki, að til væri nokkur sá hreppstjóri, sem hagaði sjer eins og mjer sagðist frá, en hann var varla búinn að sleppa orðinu fyr en hann sagði sömu söguna sjálfur og staðfesti með því framburð minn. Hv. þm. sagði frá hreppstjóra þar norður frá, sem hafði neitað að taka á móti atkv., en fjekk að sjálfsögðu sín makleg málagjöld fyrir. Þar sem jeg talaði um hreppstjórana, þá hafði jeg fyrir ákveðin dæmi frá mörgum hreppstjórum, sem annaðhvort hliðruðu sjer hjá eða beinlínis neituðu að gera lögboðin störf. Tveir þessara hreppstjóra áttu heima hjer fyrir austan fjall. Auk þessa er alkunn kosningaaðferðin á Vestfjörðum hjá Hnífsdalshreppstjóranum. Þegar því hreppstjórarnir eru ekki öruggari en þetta í starfi sínu, er ekki von, að menn sjeu fúsir á að skilja eftir hjá þeim atkv. sín í reiðuleysi. Líka ber þess að gæta, að til sveita þurfa menn altaf að leggja á sig nokkur ferðalög til þess að kjósa hjá hreppstjóra, og þau geta oft verið kostnaðarsöm.

Þá sagði hv. þm., að svona sanngjarnt mál þyldi enga bið. Já, jeg hefi nú alls ekki heyrt neitt um það, að kosningar stæðu fyrir dyrum í sumar, vegna stjórnarskrárbreytingar eða annara ástæðna, og að þeirra í hluta vegna þurfi að flýta máli þessu. En það má vel vera, að hv. 6. landsk. geti lýst því yfir, að þingrof eigi að fara fram í sumar, og þar af leiðandi nýjar kosningar, en þá væri viðkunnanlegra, að einhver ráðherranna væri við, þó ekki væri nema til þess að staðfesta yfirlýsingu hv. þm. En sje nú svo, sem mjer er næst að halda, að engar kosningar sjeu fyrir dyrum, þá virðist engin þörf að hamra þetta í gegn nú. Til þess ætti að vera nægur tími á þingunum 1930 og ’31. Það er því á engan hátt teflt á fremsta hlunn með frv., þó að það bíði a. m. k. næsta þings. Auðvitað ræður enginn yfir lífi og dauða, og því getur það komið fyrir, að kjósa þurfi einn og einn þm., en þeirra hluta vegna þarf ekki að gera breyt. á kosningalögunum, því að venjan hefir verið sú, að láta slíkar aukakosningar fara í fram á öllum tímum, eftir því sem á hefir staðið. Hinn lögfesti kosningadagur hefir ekki verið notaður í öðrum tilfellum en þeim, að kjósa ætti við almennar kosningar eða þá að margar aukakosningar ættu að fara fram. Jeg fæ því ekki betur sjeð en málið þoli vel bið, þar sem þetta er ekki nema annað þingið frá því að almennar kosningar áttu sjer stað.

Þá kem jeg að hv. 3. landsk. Hann er altaf, sem von er, ergilegur, þegar minst er á kosningarnar 1927. Nú var hv. þm. sjerstaklega að tala um óheilindi hjá mjer, en jeg fæ ekki sjeð, að það sjeu nein óheilindi, þó að jeg sje svo hreinskilinn að segja þessum hv. þm. það, að hann og flokkur hans hafi ákveðið kjörd. 1927 í júlímánuði beinlínis í því skyni, að atkvæðatala Alþýðuflokksins yrði þá minni en með því að láta kosningarnar bíða til hausts. Jeg trúi þessu statt og stöðugt, meðfram af því, að ekki var hægt að fá hann þá sem forsrh., eða þáv. atvmrh., til þess að gefa nokkrar upplýsingar um það á þinginu 1927, hvenær kosningarnar yrðu þá látnar fara fram, enda þótt þeir væru margspurðir um það. Hefðu þeir þá þegar talið, að skylt væri að láta kosningarnar fara fram strax eftir þingrof, var þeim innan handar að segja það strax. En þeir munu eins og fleiri hafa litið svo á, að það væri ekki skylda, og ljetu því kosningarnar bíða fram í júlí. Enda var fordæmi fyrir því, að kosningum hafði verið frestað frá vori til hausts, eftir að breyt. hafði verið samþ. á stjskr. og þar af leiðandi þingrof. (JÞ: Ekki undir núgildandi stjskr.). Það má vera, en jeg býst nú við, að orðalag hinnar eldri stjskr. hafi hvað þetta atriði snertir verið mjög svipað því, sem nú er. Því að það er svo, ef fara ætti eftir orðalagi stjskr. í þessum efnum, þá ætti forseti að ganga úr stólnum strax og breyt. hefði verið samþ. og allir að hætta þingstörfum. En þetta ákvæði hefir aldrei verið skilið svo bókstaflega, og þm. hafa því leyft sjer að afgr. fjárl. og fleira eftir að stjskrbreyt. hefir verið samþ.

Þá var hv. þm. að tala um, að till. Sigurðar heit. ráðunauts um að færa kjördaginn til fyrsta vetrardags hefðu verið góðar á þeim tíma, sem þær komu fram, því að þá hafi það eingöngu verið karlmenn, sem kjörfund þurftu að sækja. En jeg veit nú ekki betur en að konur hafi mestan þann tíma, sem þessi kjördagur hefir staðið, haft kosningarrjett, enda þótt kosningarrjettur þeirra væri ekki alt tímabilið eins almennur og nú. Og hafi fyrsti vetrardagur verið heppilegur til ferðalaga í sveitum þá, er hann það eins enn þann dag í dag. Annars ber þess að gæta, að það eru líka miklar annir í sveitum fyrst í júlímánuði. Þá er komið að slætti og sumstaðar jafnvel byrjaður sláttur. Er því stórt efamál, að fólk eigi betra með að fara að heiman þá heldur en 1. vetrardag. A. m. k. eru menn yfirleitt ekki eins hlaðnir störfum fyrsta vetrardag, þar sem þá er búið að ljúka við mestöll haustverk, og áhyggjur manna því minni en þegar fara á að byrja á aðalsumarvinnunni. Vegur því hjer hvað upp á móti öðru. Annars er það undantekning ein, ef svo vont veður er t. d. á Suðurlandi fyrsta vetrardag, að ekki sje öllum kleift að komast ferða sinna. En það getur auðveldlega komið fyrir, að á Norðurlandi sjeu hríðardagar fyrst í júlí. Það hefir komið fyrir, og getur eins komið enn. Ef menn eiga því að sigla fyrir öll sker í þessu máli, munu erfiðleikarnir á því að ákveða kjördag ekki verða svo fáir. Það má vel vera, að það muni yfirleitt verða betra fyrir Norðurland að hafa kjördaginn í júlímán. heldur en fyrsta vetrardag, en jeg þori óhætt að fullyrða, að fyrir Suðurland sje fyrsti vetrardagur heppilegri kjördagur en nokkur dagur annar.

Jeg þykist nú vita, að hv. 3. landsk. sje það fullkunnugt, enda þótt hann segi annað nú, að fjöldi fólks fer t. d. hjeðan úr bænum um lokin, frá 11.– 14. maí, bæði austur, vestur og norður í atvinnuleit, en þá er á 3. viku þangað til framboðsfrestur ætti að vera útrunninn, ef kjördagurinn væri fyrst í júlí. Það fólk, sem þá fer úr bænum, yrði þá að senda hingað atkv. sín, ef þau eiga að vera gild. Og hefi jeg áður lýst erfiðleikunum, sem á því geta verið. Hvernig sem því á þetta er litið, þá eru altaf fleiri þúsundir manna farnar hjeðan af Suðurlandi fyrst í júlí í atvinnuleit, og mikill hluti þessa fólks á mjög erfitt með að koma atkv. sínum til skila á rjettum tíma, ef það á annað borð getur kosið. Hvað snertir það fólk, sem fer nú ekki í burtu fyr en framboðsfrestur er útrunninn, og ætti því þeirra hluta vegna að geta kosið heima, þá er svo með margt af því, að það getur ekki kosið sökum þess, að það fer burtu með svo stuttum fyrirvara. Það er nefnil. algengt, að sagt er við menn: Já, þú getur fengið atvinnu, ef þú ferð með skipinu, sem fer eftir fáa klukkutíma. Er þá annað að gera með tímann heldur en að fara upp á skrifstofu til þess að kjósa. Mönnum verður það þá frekar fyrir að ráðstafa heimilum sínum og útbúa sig til fararinnar heldur en að neyta kosningarrjettar síns.

Í upphafi ræðu sinnar virtist mjer hv. 6. landsk. tala frekar vinsamlega um breyt., sem komið gætu til mála við frv., en þegar á leið ræðuna, virtist mjer gæta minni sanngirni hjá honum; þá vildi hann hespa málið af tafarlaust. En jeg verð nú að segja, að mjer fyndist það ekkert illa til fallið, að allshn. fengi að athuga það, þó ekki væri nema fram yfir helgina. Vil jeg því leggja það til, að því verði nú vísað til hennar, í von um, að finna megi einhverja betri úrlausn á því en þessa.