04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Þorláksson:

Hv. 4. landsk. endurtók þá ásökun sína til stj. Íhaldsflokksins, að hún hefði ákveðið, hvenær alþingiskosningarnar fóru fram 1927 til hagsmuna fyrir Íhaldsflokkinn í pólitískum efnum; og hv. þm. Ak. tók í sama streng um leið og hann afsakaði það og viðurkendi, að þetta væri nú ekki annað en mannlegur breyskleiki, að vilja vernda sína pólitísku hagsmuni, eins og hann orðaði það. En að slík vandlætingasemi skuli koma frá þessum mönnum! Það þekkja víst fáir betur en hv. 4. landsk. þá list að hlynna að flokkshagsmunum, og vita engir betur en hann, að foringjahagsmunirnir standa þeim nærri.

Jeg get sagt hv. 4. landsk. það, að jeg er mjer þess ekki meðvitandi, að jeg hafi í ráðherratíð minni látið nokkra stjórnarathöfn mína stjórnast af tilliti til flokkshagsmuna (EF: Ja, guð hjálpi okkur!), og ekki var ákvörðun kjördagsins 1927 af neinum slíkum toga spunnin. Ástæðan fyrir því, að það var ekki gert, að fresta kosningunum lengur, var sú, að fyrirmæli stjskr. heimiluðu það ekki. Samkv. 20. gr. stjskr. skal stofna til nýrra kosninga áður en 2 mánuðir sjeu liðnir frá því, er Alþingi var rofið. Og þegar stjskrbreyt. hefir verið samþ. á Alþingi, á að „rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju“, eins og stendur í 76. gr. stjskr. Þetta þýðir, að hlutaðeigandi ráðh. er skyldur til að afgr. tafarlaust frá sjer till. til konungs um þingrof og skipun nýrra kosninga, og það því fremur, sem framkvæmd hennar getur tafist dálítið vegna fjarlægðar konungs. Jeg treysti mjer ekki sem ráðh. að bera ábyrgð á því gegn þessari ákvörðun í 20. gr. stjskr., að fresta framkvæmd kosninga lengur en í 2 mánuði frá þingrofi. Og þó að þetta hefði ekki verið eins ákveðið og það er, þá var samt ekki forsvaranlegt að fresta kosningunum 5 mánuði frá síðasta í degi þingsins, þar sem þingrof varð fram að fara, og láta landið vera alþingislaust í 5 mánuði.

Það hefir verið litið svo á hjer, að þegar þingrof hefir fram farið, þá sje enginn þm. og ekkert þing til í landinu. En nú er hjer samkv. stjskr. þingbundin konungsstjórn og æðsta valdið í höndum konungs og Alþingis. Og þá má sú skipun ekki vara lengi, að annar hluti æðsta valdsins — Alþingi — sje ekki til í landinu, þó að konungur sje að vísu við völd. Jeg segi þetta aðeins til viðvörunar í framtíðinni, að það má ekki eiga sjer stað, að þjóðin sje án Alþingis svo að nokkru nemi.

Þessar ástæður hefir hv. 4. landsk. heyrt mörgum sinnum, þó að það komi ekki fram í ræðum hans í dag. Þó að ekki væri fastákveðinn viss kjördagur í þinglokin 1927, þá var það yfirleitt vitanlegt, að kosningar mundu ekki verða látnar dragast til hausts. Þess vegna er þetta ljettúðarfult og ábyrgðarlaust gaspur hjá hv. 4. landsk. Hann talar um, að vegna flokkshagsmuna íhaldsmanna hafi kosningarnar verið ákveðnar eins og gert var 1927; en svo var alls ekki.