16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

47. mál, kosningar til Alþingis

Ingibjörg H. Bjarnason:

Hv. 4. landsk. hefir nú talað svo mikið og upplýst málið með löngu talnaregistri. Er jeg honum þakklát fyrir fróðleikinn og skal ekki fara að rengja tölurnar. En það vil jeg taka fram í byrjun, að þær hafa í engu breytt skoðun minni á þessu máli.

Hv. 4. landsk. hyggur, að kosningarnar 1926 sýni ljóslega, að 1. vetrardagur sje heppilegri kjördagur en 1. júlí. Fljótt á litið styðja tölurnar þetta. En það er margt annað, sem athuga verður, áður en hægt er að draga slíka ályktun. Eins og hv. þm. tók fram, þá var svo ástatt í júlí 1926, að margir listar voru í kjöri og voru skipaðir bæði konum og körlum, og einnig kom fram sjerstakur kvennalisti. Jeg býst við, að hv. þm. hugsi sem svo, að einmitt þess vegna hafi konur frekar sótt kjörfund. En á listum flokkanna voru konur eingöngu settar í þau sæti, er vonlaust var, að þær næðu kosningu, og þess vegna lítil ástæða fyrir konur að fjölmenna sjerstaklega á kjörfund.

Undirbúningur að kvennalistanum var svo seint hafinn og lítið fyrir listann unnið eftir að hann kom fram, að ekki var við að búast, að hann fengi nægilegt fylgi. Konur hugsuðu því margar hverjar sem svo, að þær gætu eins látið vera að kjósa. Það má því ekki draga endanlega ályktun af þessum kosningum.

Hinn 1. júlí höfðu kosið 5708 konur, en 6390 1. vetrardag. Í fljótu bragði virðast því konur sækja betur kjörfundi 1. vetrardag en að vori til. En af kosningaskýrslum hagstofunnar sjest, að fyrsta vetrardag kusu í Reykjavík einni saman 682 konum fleira en 1. júlí. Mismunurinn snertir því lítið sveitirnar. Í öllum sveitakjördæmum samanlagt er mismunurinn einungis 81 kona.

Hv. þm. tók fram ýms lofsamleg ummæli um það, hvað konur væru duglegar að sækja kjörfundi. Því vil jeg síst andmæla. En jeg tel þó vafasamt, að konur sjeu jafnduglegar að sækja kjörfundi í misjöfnu veðri eins og karlar.

Jeg gæti sagt margt um það, hvenær konur eiga best heimangengt. En jeg skal ekki fara hjer út í einstök atriði. Frá því sjónarmiði hygg jeg 1. vetrardag vera óheppilegri sem kjördag en 1. júlí. Það er varla svo fáment heimili til, að ekki hafi það kaupakonu að sumarlagi. En þær eru flestar farnar um veturnætur. Er því lakara fyrir húsmóðurina, sje hún einyrki, að komast að heiman á þeim tíma árs. Jeg veit það vel, að konur hafa talið og munu telja það skyldu sína að taka þátt í kosningum til þings. En þær eru oft svo bundnar við heimilisstörf sín, að þær geta ekki sótt kjörfundi. Komi það fyrir, sem hv. þm. gaf í skyn, að vinnuveitendur neiti starfsfólki sínu um leyfi til að sækja kjörfund, þá getur það samkv. lögum kært slíkt athæfi og fengið hlut sinn rjettan.

Það getur að vísu verið einhvers virði, sem menn hafa sagt um þetta mál fyrir 20 árum. En tímarnir breytast og með þeim breytist margt annað. Samgöngur hafa að vísu breytst til batnaðar, en eitt hefir breytst til hins lakara. Það er fólksfæðin. Fólksleysið í sveitunum er þess valdandi, að verra er að hafa kjördag að vetri til en að sumarlagi Þá er sumarhjálpin farin og húsbændurnir einir eftir heima.

Jeg hygg, að þegar á málið er litið frá ýmsum hliðum, þá verði fleira, sem mælir með því að hafa kjördaginn 1. júlí en 1. vetrardag. Jeg stóð hjer upp til að þakka hv. 4. landsk. fyrir fróðlega ræðu og góð orð í garð kvenna og um leið færa rök að því, að konum kemur betur, að kjördagurinn verði færður en að hann sje eins og nú í skammdegismyrkrinu.