16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það verður ekki hjá því komist að svara hinni löngu ræðu hv. 4. landsk. þm. með nokkrum orðum. Að vísu snerti ræða hans lítið mína framsöguræðu og mín rök, en nokkur orð ljet hann þó falla í minn garð.

Hv. 4. landsk. þm. hóf mál sitt á því, að þetta mál væri fundið upp á einhverjum „ímynduðum hríðardegi“. Jeg veit ekki, hvað hann á við með þessu, en jeg hefi lifað marga virkilega hríðardaga 1. vetrardag, og jeg býst við, að svo sje um fleiri. Það þarf vissulega enga ímyndunargáfu til þess að láta sjer detta í hug hríðarveður 1. vetrardag. Þess eru mörg dæmi, að hríð hafi verið dögum saman um veturnætur. Hitt er rjett, að það geta komið fyrir góðir dagar um þetta leyti árs, þó að það sje fremur undantekning.

Það er mikill munur á þessum tveim árstímum; sjerstaklega er mikill munur á langdeginu og skammdeginu. 1. júlí er viku síðar en hjer er lengstur dagur, en síðast í október er nótt miklum mun lengri en dagurinn. Þetta eitt sýnir, að hjer er um mikinn aðstöðumun að ræða, auk þess sem allajafna má vænta verra veðurs 1. vetrardag en 1. júlí.

Hv. 4. landsk. þm. sagði síðar í ræðu sinni, að það væri síst minni von slagveðursrigningar 1. júlí en 1. vetrardag. Jeg segi nú fyrir mig, að jeg er ekki svo vatnshræddur, að jeg óttist eins mikið rigningu 1. júlí og hríð 1. vetrardag. Það má vel vera, að hv. 4. landsk. þm. sje vatnshræddari en aðrir menn, en yfirleitt munu menn nú óttast minna vatnsskúr en stórhríðar.

Hv. 4. landsk. þm. sagði, að þessu máli væri þröngvað fram með flokkssamþykt. Það held jeg ekki. Jeg skal að vísu ekki taka fyrir þetta um Íhaldsflokkinn, en það er áreiðanlegt, að í Framsóknarflokknum hefir engum verið þröngvað í þessu efni.

Þá sagði hv. 4. landsk. þm., að ýmsir þm. hefðu snúist í þessu máli. Jeg skal ekki fara að bera hönd fyrir höfuð þessara manna, því að þeir eru fullfærir um það sjálfir. Það mun rjett, að sumir þeirra, sem fylgja þessu frv. nú, hafi greitt atkv. með 1. vetrardegi, þegar hann var lögtekinn sem kosningardagur á þinginu 1909. Hv. 4. landsk. þm. segir, að í nál. þeirrar nefndar, sem fjallaði um það mál, þá standi, að nefndarmennirnir hafi að öllu athuguðu komist að þeirri niðurstöðu, að 1. vetrardagur væri heppilegastur kosningadagur fyrir flesta kjósendur. Mjer þykir sennilegt, að þetta sje rjett, en það er eitt í þessu, sem verður að taka til greina og ekki var hægt að athuga, fyr en síðar, og það er reynslan. Þó að þessir menn hafi komist að þeirri niðurstöðu 1909, að 1. vetrardagur væri best til kjördags fallinn, hefir reynslan sýnt, að svo er ekki. Það er hygginna manna háttur að læra af reynslunni, og verður ekki talið neinum til lasts, þótt hann hverfi frá fyrri skoðunum sínum, þegar hann sjer, að þær eru rangar. Slíkur er og háttur vísindamanna. Það verður því ekki til nokkurs gagns, þó að hv. 4. landsk. þm. geti bent á, að einhver, sem fylgir þessu máli nú, hafi verið á annari skoðun fyrir 20 árum.

Þá sagði hv. 4. landsk. þm., að hvorki jeg nje aðrir værum eins kunnugir úti um landið og Sigurður sál. Sigurðsson búnaðarráðunautur. Jeg hefi ekki hælt mjer af því, að jeg væri kunnugur úti um land. Jeg tók það þvert á móti fram í minni fyrri ræðu, að jeg væri ekki kunnugur í sumum í landsfjórðungum. En jeg vil benda hv. 4. landsk. þm. á annað, sem jeg hefi góðar heimildir fyrir, þó að það sje hvergi á prenti. Svo hefir skilorður maður sagt mjer eftir Sigurði sál. búnaðarráðunaut sjálfum, að hann hafi sagt, er hann var síðast í kjöri í Árnessýslu og sá fram á, að verða mundi hríð 1. vetrardag: „Nú er jeg fallinn í Árnessýslu“. — Á hvað bendir nú þetta? Af því að veðrið var vont, vissi Sigurður sál., að kjörfundarsókn mundi verða lítil og fylgi hans því ekki koma í ljós. Þetta sýnir, að þessi maður mundi nú hafa kannast við, eins og fleiri hafa gert, að reynslan hefði sýnt, að 1. vetrardagur væri óheppilegur sem kjördagur, þó að hann hefði haldið annað í upphafi.

Þá sagði hv. 4. landsk. þm., að til væru þeir atvinnurekendur, sem að vísu ekki beint bönnuðu verkamönnum sínum að sækja kjörfund, en settu þeim þá kosti, sem væru sama sem neitun eða verri en neitun. Jeg þekki þess engin dæmi, að slíkt eigi sjer stað, en ef svo væri, þyrfti að fyrirbyggja það, frekar en gert er í núgildandi l. En þótt þessi tilfelli kunni að finnast, kemur það þessu máli, sem hjer er um að ræða, færslu kjördagsins, ekkert við. Atvinnurekandi getur engu síður beitt þessu ofbeldi, ef hann á annað borð gerir slíkt, 1. vetrardag en 1. júlí. Jeg skildi hv. 4. landsk. þm. svo, að með atvinnurekendum ætti hann ekki við bændur, en ef hann hefir átt. við þá, gæti þessi hætta ef til vill verið meiri, ef kjördagurinn er fluttur til 1. júlí. En varla mun þó hv. 4. landsk. þm. á þeirri skoðun, því að hann heldur því fram, að bændur hafi ekki miklar annir um það leyti árs. (JBald: Það eru fleiri en jeg, sem gera það). Það kann að vera. En það þýðir ekki að vitna í 20 ára gömul ummæli í því sambandi, því að nú er ástandið alt öðruvísi en þá var. Það má vera, að þá hafi verið farið að þrengja eitthvað að með vinnufólkshald, en varla mun það þá hafa verið orðið alment, að á mörgum bæjum væru einyrkjar.

Meiri hl. ræðu hv. 4. landsk. þm. var samanburður á kosningunum 1. júlí og 1. vetrardag 1926, og fjekk hann út úr þeim tölum, að kosningar væru betur sóttar 1. vetrardag en 1. júlí. Jeg hefi ekki aðstöðu til að rengja þetta. En hitt er áreiðanlega vafasamt, að draga þær ályktanir af því, þótt kosningar hafi í þetta sinn verið betur sóttar 1. vetrardag en 1. júlí, að það sje vegna þess, að aðstaða fólks til að sækja kjörfundi sje betri þá. Enda vildi nú svo einkennilega til, að hv. 4. landsk. þm. taldi aðrar orsakir geta komið þarna til greina í þeim tilfellum, sem pössuðu fyrir hann. Bæði á Akureyri og Ísafirði voru kosningarnar betur sóttar 1. júlí en 1. vetrardag 1926, og átti þó 1. vetrardagur að vera hentugri fyrir íbúa þessara bæja, eftir skoðun hv. 4. landsk. þm. En þá finnur hv. 4. landsk. þm. það út, að það eru alt aðrar orsakir en kjördagurinn, sem þessu valda, sem sje það, að fólk hafði ekki áhuga fyrir kosningunni. (JBald: Menn vildu ekki kjósa framsóknarmann). Það er sama, hvernig þetta er orðað. Þarna liggur sú spurning, sem aldrei verður leyst: af hverju kosningar eru betur sóttar í eitt skifti en annað. Að slíkt þurfi ekki altaf að stafa af því, hvernig kjördagurinn er valinn, hefir hv. 4. landsk. þm. sannað best sjálfur með dæminu frá Ísafirði. Þó að tölur sjeu teknar þannig í eitt skifti, sannar það ekki neitt. Hitt er annað mál, ef gerður er samanburður á kosningasókn á báðum þessum tímabilum í mörg ár, þá kann að vera, að draga megi af því ályktanir. En vafasöm verður þó sú niðurstaða altaf, sem þannig fæst, af því að þetta fer eftir því, hvort kjósendur hafa áhuga fyrir kosningunni eða ekki. Um hitt þýðir ekki að deila, að aðstaðan er betri fyrir sveitirnar 1. júlí en 1. vetrardag, enda hefir hv. 4. landsk. þm. ekki getað mótmælt því með neinum skynsamlegum rökum. Slíkt eru vitanlega engin rök, þegar verið er að slá því fram, að stórhríðar geti eins geisað 1. júlí og 1. vetrardag. Það er álíka og ef jeg segði, að sól gæti verið eins hátt á lofti í desember og júlí. Það kann að vera rigning 1. júlí, en alls ekki frost. Hitt kemur aldrei fyrir, að dagurinn sje lengri en nóttin í desember, a. m. k. ekki á meðan Ísland hefir óbreytta stöðu á hnettinum.

Þá vitnaði hv. 4. landsk. þm. í Ólaf sál. Briem og sagði, að við formælendur þessa frv. hefðum ekki eins mikla þekkingu á högum bændanna sem hann og bærum ekki eins mikinn góðvilja í garð sveitanna. Jeg tek það ekki nærri mjer, þótt jeg sje ekki settur eins framarlega í þessu efni og Ólafur sál. Briem, en það er bara sá galli á þessari röksemdafærslu, ef röksemdafærslu skyldi kalla, að aðstæðurnar hafa breytst, enda er enginn kominn til að segja, að Ólafur sál. Briem liti nú sömu augum á þetta mál og hann gerði fyrir 20 árum.

Hv. 4. landsk. þm. sagði, að það væri þýðingarlaust fyrir okkur að vera að færa kjördaginn, því að við gætum alveg eins búist við hríð 1. júlí eins og 1. vetrardag.

Þá sagði hv. þm., að hið eina, sem vit væri í, væri að lögbjóða, að ávalt skyldi vera gott veður á kjördag. Jeg býst nú við, að þetta hafi verið sagt í spaugi, enda tel jeg ólíklegt, að slíkur kraftur fylgi samþyktum Alþingis, að þau lög yrðu haldin.

Þá mintist hv. þm. á brtt. sínar og álasaði okkur fyrir það, að þær hefðu mætt mótstöðu. Jeg gerði nú ekki annað en að andmæla hóglega annari brtt. Jeg þekki eigi af eigin reynslu dæmi þess, að þörf sje á þeirri breyt., að gera kjördag að hvíldardegi. En ef þær frásagnir af ójafnaði atvinnurekenda, sem hv. þm. hefir komið fram með hjer, eru sannar, þá myndi jeg telja ástæðu til að taka slíkt í lög. En jeg er ekki alveg sannfærður um, að svo sje, og upp til sveita hygg jeg, að slíkt eigi sjer ekki stað. En ef svo væri, að ofbeldisverk væru framin á verkalýðnum í þessum efnum, þá er vitanlega sjálfsagt að fyrirbyggja það.

Hv. þm. lauk máli sínu á þá leið að spyrja, hverju þeir þm., sem kosnir væru af kjósendum í kaupstöðum, ætluðu að svara þeim á dómsdegi, er þeir væru spurðir um afskifti sín af þessu máli. Jeg býst við, að þessari spurningu hafi verið beint til mín ekki síður en annara. Fyrir mitt leyti get jeg svarað þessu þannig, að það er sannfæring mín, að fyrir flest kauptún landsins — og öll kauptúnin í mínu kjördæmi — sje 1. júlí heppilegri kjördagur en fyrsti vetrardagur. Það getur að vísu verið, að hv. þm. eða flokkur hans geti fengið einhvern hóp til að greiða atkv. á móti færslu kjördags, en jeg held, að sá hópur verði aldrei stór. En hvað sem því líður, mun jeg ekki selja sannfæringu mína fyrir kjörfylgi, og ef kjósendur mínir geta ekki fylgt mjer með þá sannfæringu, er jeg hefi í þessu máli, þá verða leiðir að skilja. Jeg mun starfa hjer á þingi eftir bestu sannfæringu, en svo verður að fara sem verkast vill um næstu kosningar.

Jeg hefi þá vikið að flestu því í ræðu hv. þm., er máli skiftir, og hygg jeg, að ekki þýði að lengja umr. um málið úr þessu, því að líkur eru til, að þær verði svipaðar og hjá kerlingunum, sem sögðu: „Klipt var það“, „skorið var það“. Hv. deild mun vega þau rök, sem fram hafa komið með og móti, og þjóðin mun að lokum fella sinn dóm í þessu máli, og þeim dómi mun jeg hlíta.

Hjer á fundinum hefir verið útbýtt brtt. frá hæstv. dómsmrh., en út í efni þessarar till. fer jeg ekki fyr en hann hefir talað fyrir henni og lýst ástæðum til hennar.