16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

47. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Jeg var vant við látinn í dag, er umr. hófust, og heyrði því ekki ræðu hv. frsm. minni hl. Jeg hafði satt að segja ekki átt von á þeim ummælum, er hann ljet falla þar í garð bænda, því að jeg hefi álitið hann kurteist prúðmenni til þessa. Jeg geri nú að vísu ekki ráð fyrir, að jeg erfi þetta við hann, því að það getur hent okkur alla, að við höfum ekki þá stjórn á skapi okkar sem skyldi.

Jeg get ekki stilt mig um að svara því nokkrum orðum, er hann var að færa að okkur samnm. sínum í landbn. Hann má gjarnan vera drjúgur yfir störfum sínum þar, en að hann geti sjerstaklega fært sjer til gildis, að hann hafi ekki felt úr hor, getur mjer ekki skilist. Hygg jeg, að hann hafi til þessa ekki haft svo stór fjárbú undir höndum, að það geti talist honum til sjerstakrar frægðar. Veit jeg ekki, hvernig hann fer að finna þeim orðum sínum stað um samnm. sína í landbn., að þeir hafi felt úr hor. Jeg held, að óhætt sje að fullyrða, að enginn þeirra hafi gert það, og því sje hjer ekki um annað en ósvífinn sleggjudóm að ræða.

Þá sagði hv. þm., að flestir þingbændur væru hreppstjórar og oddvitar, sem ráðskuðu með harðri hendi heima í sinni sveit og kærðu sig kollótta um, þótt aðrir en þeir gætu ekki kosið til Alþingis. Kvað hann ennfremur svo að orði um þá, að þeir væru harðdrægir og stirðnaðir í formum og framkvæmdum ómannúðlegra laga. Jeg er nú ekki hreppstjóri — hefi aðeins verið settur um stund —, en oddviti hefi jeg hinsvegar verið um skeið. Um aðra þingbændur skal jeg ekki segja, hvort þeir gegna þessum störfum. En hvað sem því líður, tel jeg þennan dóm allskostar ómaklegan. Jeg hygg, að hjer sje um þá stjett opinberra starfsmanna að ræða, sem ef til vill hefir sýnt mesta ósjerplægni í starfi sínu. Á hreppstjórum áður og oddvitum nú hefir hvílt vanþakklátt og mikið starf og illa launað, eins og allir vita. Þeir eiga því síst skilið, að um þá sje farið slíkum brigslyrðum. Þeir hafa yfirleitt enga harðdrægni sýnt, heldur þvert á móti verið hjálparhellur síns sveitarfjelaga á ýmsa lund. Og að þeir hafi bægt mönnum frá kosningu, held jeg að sje rangt með öllu.

Þá sagði hv. þm., að rík ástríða væri til þess hjá atvinnurekendum að bægja fólki frá að sækja kosningu. Ef þetta er mælt til sveitamanna, tel jeg, að þessi ummæli sjeu gersamlega ómakleg og ósæmileg. Loks kom hann með þá rúsínu, að við vildum enga sanngirni sýna í málinu, heldur aðeins vekja illindi út af því. Mjer finst fjarri því, að beitt hafi verið nokkrum ofsa í þessu máli af okkar hálfu. Jeg sje heldur ekki, að hann geti dróttað að okkur ósanngirni. Mjer finst ekki hafa borið mikið á því, að hann eða flokksmenn hans í Nd. hafi kært sig um málamiðlun. Þeir komu fyrst á allra síðustu stundu með brtt., en annars hafa þeir ekki sýnt neinn vilja á öðru en hamast gegn málinu og heimta það drepið. Nú er ekki nema um tvent að gera, láta málið daga uppi eða samþ. það eins og það liggur fyrir. Hv. þm. ætti að geta skilið, að við getum ekki gengið svo í vatnið fyrir hann, að við förum að drepa málið eingöngu honum til þægðar, ekki ríkari ástæður en hann hefir borið fram gegn því í dag. Jeg mun því greiða atkv. gegn öllum brtt., til að tefja ekki málið.

Jeg skal ekki segja um, hvaða afstöðu jeg hefði tekið gagnvart brtt. hæstv. dómsmrh., hefði hún komið fram fyr en þetta. Það er langt frá því, að við viljum sýna kaupstöðunum nokkra ósanngirni. Annars held jeg, að hv. frsm. minni hl. geri alt of mikið úr þeim óþægindum, sem kaupstaðirnir hafi af færslu kjördagsins, enda stendur þeim opið eftir sem áður að kjósa utan kjörstaða.

Þá las hv. þm. upp ósköp af tölum í sambandi við kjörsókn við landskjörið 1926 um sumarið og haustið. Gallinn var bara sá, að þessar tölur sanna sama sem ekki neitt. Kappið í kosningunum til landskjörs um sumarið var miklu minna en um haustið. Um sumarið taldi hvor stóru flokkanna, og ef til vill Alþýðuflokkurinn líka, sjer einn mann vísan, en aftur var ómögulegt að sjá fyrir úrslit kosninganna um haustið. En þetta sannar ekki, að hægara hafi verið um sókn um haustið, enda var þátttaka minni en um sumarið í mörgum sveitum, en aftur meiri í kaupstöðunum. Þannig vissi jeg til, að í minni sveit sótti ekki nema 1/3 kjósenda kjörfund, enda var hríð framan af degi og kafa-ófærð.

Hv. þm. segir, að Ólafur Briem hafi talið heppilegt, að fyrsti vetrardagur væri kjördagur. En honum láðist að geta þess, að nefndin, sem hann var í, taldi alt annan kjördag heppilegastan fyrir Norður- og Austurland, enda þótt álit n. væri, að nota mætti fyrsta vetrardag. Þá höfðu menn heldur ekki reynsluna af því, hvernig sá dagur gæfist, enda var aðstaða þá alt önnur en nú. Kjósendur voru þá miklu færri en nú og kvenfólk hafði ekki kosningarrjett, en allir vita, að kvenfólk á erfitt með að sækja kjörfund í vondum veðrum. Auk þess er þátttaka orðin miklu almennari í kosningum nú en þá var, og því fleiri, sem þurfa að sækja kjörfund.

Jeg hygg því, að það orki ekki tvímælis hjá neinum þeim, sem þekkir til í sveitum landsins, að færsla kjördagsins sje mikil rjettarbót fyrir þær. Og ekki skil jeg í, að margir taki undir þær röksemdir hv. þm., að veður geti eins hamlað kjörsókn í júlí og 1. vetrardag.

Jeg mun ekki elta frekar ólar við hv. frsm. minni hl. Hann fór með ýmsa sleggjudóma og fjarstæður í ræðu sinni og var ólíkt ókurteisari en hann er vanur. En eins og jeg hefi sagt, býst jeg ekki við að erfa þetta við hann, því að þetta hefir sjálfsagt verið augnablikshrösun, sem alla getur hent.