16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Mikils þykir nú við þurfa, þegar ekki færri en fjórir af hv. dm. rísa upp hver á fætur öðrum til þess að halda uppi málstaðnum fyrir færslu kjördagsins. Mjer hefir altaf þótt það grunsamlegt, þegar svona margir þurfa að verja sama málstaðinn. Hann er þá venjulega ekki sem bestur.

Hv. 2. landsk. fann ástæðu til að þvo hendur sínar af því að vera með þessu máli. Hv. þm. tók það fram, að tölur sýndu í fljótu bragði, að kosningar væru betur sóttar á haustin, en svo vissi jeg ekki, hvað þm. ætlaði að liggja lengi yfir þeim til þess að reyna að fá eitthvað annað út. Hv. þm. veit, að það kjósa 10% fleiri fyrsta vetrardag heldur en 1. júlí, samkvæmt áður upplesnum hagstofuskýrslum, og það dettur heldur engum í hug að vjefengja þetta. Þá fann hv. þm. það sjer til afsökunar, að konur hefðu ekki verið neitt áfjáðar í að kjósa 1926, af því að þá var kona í kjöri. Skárri var það áhuginn hjá konunum! Hv. þm. ljet þó skína í það, að konur hefðu yfirleitt ekki verið ánægðar með þá konu, sem sett var efst á listann, og þess vegna ekki kosið hann, en bara komið fram með hann í þeirri von að fá dálitið af atkv. Mjer er nú kunnugt um það, að 700 konur hjer og úti um land samþ. að frú Bríet væri efst á listanum. Þar á meðal voru margar íhaldskonur. En ekki veit jeg, hvort hv. 2. landsk. var ein þeirra. En svo, þegar til kastanna kom, þá sneru þær flestar eða allar baki við sínum eigin lista, og gengu meira að segja á milli manna til þess að rýja af honum fylgið. Það þarf ekki annað en að benda á fundinn, sem þær hjeldu laust fyrir landskjörið um sumarið 1926, þar sem ýmsar þær helstu kvenrjettindakonur ákváðu að láta kvennalistann sigla sinn sjó. Það kom líka síðar á daginn, þegar atkv. voru talin, að þá fjekk frú Bríet ekki nema ein 500 atkv. frá þessum 6–7 þús. kvenkjósendum á öllu landinu, sem atkv. greiddu. Svona voru nú heilindin mikil, og svo á að afsaka það með því, að kona hafi verið í kjöri.

Jeg skal ekki bera á móti því, að margt geti hindrað kvenfólkið í ferðalög til kosningafunda, en hvað klæðnaðinn snertir, þá er það í ferðalögum víst flest farið að klæðast eins og karlar, svo að það getur ekki bagað.

Hv. 2. landsk. vildi halda því fram, að vegna fólksfæðar í sveitunum væri betra að hafa kjördaginn 1. júlí. Jeg get nú ekki sjeð annað en að fólksvandræðin í sveitunum sjeu eins mikil

1. júlí og 1. vetrardag. (IHB: Þá er sumarhjálpin farin). Hvað kallar hv. þm. sumarhjálp? (IHB: Kaupakonur). Nú, hv. þm. vill þá aðeins láta húsfreyjuna kjósa, en kaupakonurnar eiga að vera heima og vinna á meðan. Það eru eflaust einhverjir fleiri hv. þm., sem líta svo á, að það sje aðeins húsbóndinn og húsfreyjan, sem eigi að kjósa í sveitunum. Jeg verð að segja það, að mjer brást illa liðsmaður, þar sem hv. 2. landsk. var. Mjer datt satt að segja ekki annað í hug en að hann mundi verða mjer samtaka um að hindra þessa kúgun, sem gerir konurnar svo afskiftar. Jeg er þess vegna hræddur um, að hv. þm. fái litlar þakkir, þegar hann kemur fram fyrir konur landsins við væntanlegt landskjör næsta ár og býður þeim sína pólitísku forsjá næsta kjörtímabil.

Þá hefir hv. frsm. meiri hl. talað hjer langt mál; þar var staðhæfing á móti staðhæfingu, líkur á móti líkum og rök á móti rökum, en sá er munurinn á mínum rökum og hans, að mín rök voru staðfest með tölum úr hagskýrslum, en rök hans voru hugboð, skoðanir og ímyndanir hans sjálfs. Jeg vil byggja á þeim rökum, sem eru óhrekjanlegur sannleikur, og jeg veit, að hv. frsm. meiri hl. er svo greinagóður maður, að honum kemur ekki til hugar að vjefengja þær skýrslur um landskjörskosningarnar 1926, sem jeg hefi flutt hjer fram.

Hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að þó að mætir menn hefðu ákveðið kjördag á fyrsta vetrardag, þá hefði reynslan sýnt það síðan, að hann væri mjög óheppilegur. Jeg vil aftur á móti halda því fram, að þessum mætu mönnum hafi alls ekki skjátlast. Fyrir því eru skjalfestar sannanir, og reynslan er sú, að kjörfundir eru aldrei betur sóttir en einmitt á fyrsta vetrardag. Ummæli Sigurðar heitins Sigurðssonar sanna lítið. Hann sagðist sjá það fyrir að hann mundi falla í Árnessýslu á 1. vetrardag 1919, af því að veðrið væri svo vont. Það er nú svo, að það bregður hverjum á sínu banadægri, og þetta var einmitt hinn pólitíski dauðdagi Sigurðar. Það var fyrirfram vitanlegt, að Sigurður var búinn að tapa sínu fylgi í Árnessýslu og hlaut að falla. Til þess þurfti ekkert óveður, en það er eðlilegt, að menn vilji finna sjer eitthvað til afsökunar undir slíkum kringumstæðum, og þá er veðrið ekki verra en hvað annað.

Jeg skal geta þess út af ummælum hv. 6. landsk. og hv. frsm. meiri hl., að þar sem jeg talaði um, að atvinnurekendur bönnuðu verkafólki að sækja kjörfund, þá átti jeg við atvinnurekendur við sjó. Mjer höfðu alls ekki dottið bændur í hug, en hitt er sennilegt, að kaupafólk eigi yfirleitt ekki heimangengt, sjerstaklega ef það þarf að fara langa leið til þess að skila atkv. sínu.

Mjer þætti gaman að vita, hvað hv. frsm. þykist fá út úr þessum tölum. Ætli hann fengi ekki það, að kjörsóknin er betri, hvort sem teknar eru sveitir út af fyrir sig eða kaupstaðir út af fyrir sig? Hjer er ekki að fá neitt út. Tölurnar sýna sig. Á Ísafirði og Akureyri þóttist hv. frsm. fá heldur en ekki góða ástæðu til að sanna sitt mál. Hann sagði, að á Akureyri og Ísafirði hefðu menn verið áhugalausir og því hefðu ekki margir sótt kosningu þar. En ástæðan var sú á þeim stöðum, að jafnaðarmenn vildu ekki kjósa, af því að þeirra flokksmaður var ekki í kjöri. Þessu var og beint lýst yfir í blöðum þeirra á Ísafirði, að menn vildu ekki gerast taglhnýtingar Framsóknar, eins og Guðmundur í Gufudal orðaði það.

Þá sagði hv. þm., að tölur sönnuðu ekkert, nema því aðeins, að teknar væru frá margra ára tímabili og bornar saman. Jeg er sannast að segja ekki fróður um það, hvort við getum tekið margra ára tímabil til þess að bera saman kosningu 1. júlí og 1. vetrardag. En jeg held, að það sjeu ekki nema örfáar kosningar, sem hægt er að bera saman, og að þær sjeu nú þegar bornar saman. Þessar kosningar 1. júlí og 1. vetrardag eru skýrasta dæmið. Það liggja ekki aðrar skýrslur fyrir. Menn geta lengi sagt: jeg vildi, að skýrslurnar væru svona eða hinsvegar, næðu yfir 10–20 ár o. s. frv. Jeg skil það vel, að þeir hv. þm., sem hafa talað með færslunni, vildu, að þessar ótætis hagskýrslur væru ekki svona.

Það var sagt um Ólaf Briem, að hann væri gerhugull maður með afbrigðum og hefði sjeð langt fram í tímann flestum öðrum fremur. Jeg vík enn að því, að hann sagðist álíta kjördag fyrir alt landið heppilegastan 1. vetrardag — að öllu athuguðu. Í Skagafirði, þar sem hann starfaði lengst, er kjörfundarsókn nákvæmlega sú sama 1. vetrardag og 1. júlí; það sækja 500 báða dagana. Það sýnist því, að hann hefði ekki verið frá því að líta á 1. vetrardag sem heppilegan fyrir Skagfirðinga sjerstaklega.

Jeg þakka nú frsm. meiri hl. fyrir það, að hann vill taka til athugunar brtt. mína um það að gera kjördaginn að löghelguðum hvíldardegi. Væri hún samþykt, er það dálítil bót, þótt það engan veginn ráði bót á því vandræðaástandi fyrir mikinn fjölda fólks, ef kjördagurinn er fluttur til 1. júlí.

Þá vjek hv. þm. nokkrum orðum að afstöðu kaupstaðabúa fyrir austan til færslu kjördagsins. Hann bjóst kannske við því, að jeg hefði getað fengið hóp manna til þess að greiða atkv. gegn færslunni. Jeg vildi nú, að hv. þm. hefði ekki orðað það á þessa lund, að jeg hefði fengið menn til þess, því að jeg geri ráð fyrir, að kjósendurnir austur frá geti nokkurn veginn vitað sjálfir, hvaða dagur er þeim heppilegastur. Jeg geng út frá því, að þeir hafi myndað sjer skoðun um þetta efni. Og þó að hv. þm. sje ólíkt kunnugri austur frá en jeg, held jeg að jeg verði að tefla fram þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið frá kunnugum mönnum úr hans kjördæmi, að ýmsir af hjeraðsbúum sjeu þá allfjarri sínu heimili, í verstöðvum, og því ekki hægt um vik með atkvgr. við kosningar, og að þeim mundi koma betur, að kjördagurinn væri ekki sá, sem frv. fer fram á.

Jeg ætla ekki neitt að fara út í það, hve strangt kjósendur hv. þm. taka á afstöðu hans til þessa máls. En jeg veit alveg fyrir víst, að fólkið í sjávarþorpum og kaupstöðum landsins er eindregið þeirrar skoðunar — svo að segja hver maður —, að kjördagurinn, sem nú er, sje mjög heppilegur.

Þá má í þessu sambandi minnast á það, að samhliða því, að kaupstaðir og kauptún hafa miklu færri fulltrúa eftir fólksfjölda, á nú ennþá að þrengja kosti þeirra með því að gera þeim erfiðara um kjörfundarsókn. Þetta er í raun og veru ekkert annað en tilraun til að færa valdið ofurlítið til. Það endurtekur sig víða sama sagan. Sumstaðar hafa menn verið svo skammsýnir og ófrjálslyndir og sjálfselskir, að þeir hafa ekki látið undan fyr en þeir sáu annaðhvort sverðið á lofti eða framan í byssuhlaupið. Þannig var það á Englandi, þegar borgir mynduðust og sveitirnar tæmdust, svo að ekki urðu eftir nema nauðafáar hræður í sumum kjördæmunum. Í einu kjördæminu var aðeins einn kjósandi eftir, og hjelt hann áfram að kjósa um tíma, en tugir þúsunda í kaupstöðunum fengu ekki að kjósa einn einasta mann.

Jeg vona, að það ríki ekki sú ósanngirni hjer í sambandi við kjördæmaskipunina, að til neinna slíkra neyðarúrræða þurfi að taka. Enda vil jeg ekki láta menn álíta, að jeg sje að hóta byssum og sverðum. Jeg sagði þetta aðeins sem dæmi úr sögunni, sem hefir komið fyrir og altaf getur hent sig, svo framarlega sem ekki er við gert í tíma.

Dálítill gustur stóð af hv. 6. landsk., þegar hann fór af stað. Honum þótti jeg bæði hafa verið illmáll og ókurteis, og sjerstaklega í garð bænda. Raunar er það nú ekki rjett, að jeg hafi verið illmáll í garð bænda, heldur þeirra, sem vilja þröngva þessu máli fram. En það er ekki að furða, þótt nokkuð fast sje kveðið að orði, þegar slíkt rjettarrán á fram að fara eins og færsla kjördagsins er. Því að í raun og veru er verið að ræna nokkuð mörg þúsund íslenskra kjósenda rjetti sínum til þess að taka þátt í landsmálum. Er eðlilegt, að maður sje harðorður í garð þeirra, sem beita sjer fyrir þessu. Mjer hefir fundist afstaða ýmissa manna til þessa máls svo einstrengingsleg hjer á þingi, að þeir hvorki vildu líta til hægri nje vinstri, heldur þeysa þeir áfram og vilja nota afl meiri hlutans til þess að knýja fram ranglátt mál til mikils skaða fyrir meiri hluta þjóðarinnar. Jeg fullyrði, að það sje til skaða fyrir 65 þús. í landinu að flytja kjördaginn, en hinar 35 eða 37 þús. hafa ekkert gagn af þessum flutningi. En ef bændur vilja hafa sinn kjördag 1. júlí eða 1. laugardag í júlí, hví ekki að lofa þeim það? En þeim nægir það ekki. Þeir vilja ekki lofa hinum, sem öðruvísi stendur á fyrir, að hafa sinn eiginn kjördag á öðrum tíma. Þegar þetta er nefnt í þinginu, er hamast á því, að málið þoli enga bið o. s. frv.

Þar sem hann var að tala um horfelli, má vera, að jeg hafi kveðið nokkuð fast að orði um landbn.menn; en satt að segja átti það ekki við landbn.menn í Ed., heldur þá í Nd. Annars hefir mjer ekki fundist nein úlfúð vera milli mín og bænda í hv. deild.

Þá var hv. þm. reiður fyrir hönd oddvita og hreppstjóra og taldi þá hafa unnið hin ósjerplægnustu verk. Efast jeg ekki um, að til sjeu þeir slíkir, en hitt veit jeg, að til eru mörg dæmi þess, að þeir eru harðsvíraðir menn og harðstjórar, sem vilja drotna og sitja yfir hlut hvers manns. Einna herfilegast allra manna virðast mjer þeir koma fram gagnvart rjettindamálum manna, bæði innan þings og utan. Jeg sagði, að þeir væru stirðnaðir í ómannúðlegri framkvæmd fátækralaganna og sveitarstjórnarlaganna, og það get jeg í raun og veru staðið við. Það er kannske ekki nema mannlegt að festast svo í sínu starfi. En jeg álít, að það hafi heldur tekist illa hjá þeim flestum hjer á þingi að koma fram mannrjettindamálum, alveg sjálfsögðum og alveg kostnaðarlausum líka. Mörg mannrjettindamál hafa fallið í þinginu bara fyrir það, að menn voru stirðnaðir í eldri formum.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði enga málamiðlun viljað, en flokksmenn mínir í Nd. hefðu á síðustu stundu viljað koma að brtt., en hafi þá verið of seint. Hefir hv. þm. þá ekki sjeð mínar till.? Jeg bar hjer fram — og ekki óhæfilega seint — mína brtt. um það, að hafa tvo kjördaga. Annars var það hrein og bein rangsleitni af meiri hl. í Nd., þegar hann vildi ekki leyfa að koma að brtt., svo að hægt væri að greiða atkv. um hana þar. Því að það var nægur tími til afgreiðslu málsins, ef það á annað borð átti að ganga fram.

Þá sagði hv. þm., að þeir vildu ekki fara að ganga í vatnið fyrir mig með því að fara að breyta þessu frv. Jeg veit sannarlega ekki af orðanna hljóðan, hvað hann hefir átt við, en þykist þó skilja anda þessara ummæla og hjer um bil á þessa leið: Við framsóknarmenn erum búnir að gera þetta að okkar máli og berjast fyrir því um langt skeið; og ef það ekki kemst fram, koma ótætis íhaldsmennirnir og segja, að við höfum ekki þorað að halda því til streitu fyrir jafnaðarmönnum. — Jeg býst við, að þetta sje það, sem hann kallaði að ganga í vatnið. En jeg held hv. þm. ættu ekki að vera svona spjehræddir, — ef þeir gætu forsvarað afstöðu sína til málsins og gert rjett meiri hl. landsmanna og fullnægt um leið rjettindum minni hlutans.

Þeir segja, að annaðhvort verði að samþ. málið eða fella. En hvað liggur málinu á? Því er svarað, að það sje komið svo langt, að ekki megi hætta við það. En það er engin kosning framundan, svo að við vitum til. Það eru tvö ár þangað til. Það er alveg nógur tími að taka málið upp á þinginu 1931 og afgr. þá, eftir því sem menn koma sjer saman um. Er ekki vonlaust, að á þeim tíma, sem er þangað til, geti kaupstaðabúar, sem samkomulag vilja, komið sjer svo við fulltrúa sveitahjeraðanna, sem vilja breyta kjördeginum, að þeir fyndu þá lausn þessa máls, sem báðir aðiljar mættu nokkurn veginn við una. Í rauninni er það ekki annað, sem jeg fer fram á. Og jeg get bent á framkomu mína í þessu máli í mörg ár. Jeg hefi altaf sagt, að jeg gerði það ekki að aðalatriði að halda þessum kjördegi fyrir sveitirnar, ef þær telja sjer betur borgið með því að breyta til; en jeg segi, að 1. vetrardagur sje hentugri fyrir kaupstaðina og því eigi þeir rjett á að hafa hann. En menn hafa ekki viljað neina málamiðlun og telja, að það þurfi svo að flýta málinu. En því liggur ekki nokkum skapaðan hlut á, því að það eru engar kosningar fyrir dyrum.

Hv. þm. sagðist hafa ruglast í þessum tölum, sem jeg fór með. Mjer þykir sannarlega vænt um, að það sjest, að hv. þm. hafa ekki viljað koma nærri þessum tölum. Þær eru líka svo ákaflega óþægilegar fyrir þá. Þær standa þarna og er ómögulegt að hrófla við þeim, hvernig sem að er farið. Þetta eru ótugtar tölur fyrir hv. þm. Hann sagði, að þær sönnuðu lítið. En þær sanna bara alt. Jeg vil samt ekki heimta annan kjördag af bændum, en að þeir lofi kaupstöðunum að vera í friði.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið meira kapp í kosningunum 1. vetrardag en 1. júlí 1926 vegna þess, að 1. júlí hefðu flokkarnir þrír — eða a. m. k. tveir — átt vísan mann í þingsæti. Hann sagði, að e. t. v. hefði minn flokkur ekki verið viss með mann. Ef við tökum atkvæðatölurnar frá 1926 hjá flokkunum, þá hafði Framsóknarflokkurinn ekki nema liðug 200 atkv. fram yfir Alþýðuflokkinn, svo að fyrirfram var ekki hægt að sjá, hvor flokkurinn var vissari. En jeg fullyrði, að það hafi með eðlilegum hætti verið meiri vinna lögð í kosningarnar 1. júlí en 1. vetrardag, þar sem voru fimm listar og fimm frambjóðendur fóru um þvert og endilangt landið og þeirra fulltrúar og sendimenn, og reyndu sem þeir gátu að róta við fólkinu. En það var atvinnan og vinnuhugurinn, sem dreifði áhuganum, svo þátttaka varð samt minni í sumarkosningunni. Það er svo, að þó að menn megi virkilega anna vegna sækja kosningu, þá er hugurinn við það bundinn að undirbúa sumarstarfið. 1. vetrardag 1926 var miklu minni áhugi fyrir kosningum, af þeirri einföldu ástæðu, að þar börðust bara tveir flokkar. Og Jafnaðarmenn studdu „Tíma“-menn, ýttu undir sína menn að kjósa, en það veit jeg allra manna best, að það var sumstaðar erfitt að fá verkalýðinn til þess að kjósa framsóknarlistann, og allmargir drógu sig í hlje, svo sem áður er sagt.

Þá var hv. þm. illa við, að jeg nefndi Ólaf Briem. Hann vildi ekki hafa eftir honum þau ummæli, sem jeg las upp. Hann hafði það eftir þessum mæta manni, að þessi dagur gæti gengið. En hann sagði það ekki, heldur: að öllu athuguðu er þetta besti dagurinn. (JónJ: Hvað sagði hann þá um Austurland?). Hann sagði að haganlegasti dagurinn fyrir Austfirðinga væri 10. september. Það er ekki viðlit, að hv. þm. vilji taka þá till. til greina. En haganlegastur dagur fyrir alt landið sagði Ólafur Briem að væri 1. vetrardagur. Hann sagði ekki, að þessi dagur „gæti gengið“, heldur að hann væri hentugastur að „öllu athuguðu“.

Þá er það brtt. hv. dómsmrh. Hún fer í svipaða átt og jeg hefi haldið fram, að hentugast væri, þegar rætt hefir verið um kjördagsmálið á undanförnum þingum. Get jeg því sætt mig við, að hún verði samþ., en hygg hinsvegar, að till. geti varla staðist að forminu til, nema seinni liður minnar till. sje tekinn upp.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það hefðu heyrst sterkar raddir frá bændakjördæmunum um að færa kjördaginn. Jeg verð nú að játa það, að jeg hefi ekki orðið var við neinar slíkar raddir, enda held jeg, að þær sjeu ekki til, því að varla verður það rakið til bændanna, þótt hæstv. ráðh. kunni að hafa sett fram einhverjar kröfur í þessu efni í blaði sínu. Jeg hefi enga trú á því, að allar þær raddir, sem í „Tímanum“ gjalla, sjeu runnar undan rifjum bændanna, þó að hæstv. ráðh. vilji svo vera láta. Og jeg minnist þess ekki að hafa sjeð á þetta drepið í neinni þingmálafundargerð úr sveitakjördæmunum. Hinsvegar man jeg eftir því, að Þórarinn á Hjaltabakka ljet svo um mælt við mig á þingi 1924, að 1. vetrardagur væri að sínu áliti heppilegasti kjördagurinn fyrir sveitirnar þar fyrir norðan. Má og leggja allmikið upp úr dómi hans í því efni. En mjer skilst, að afstaða hæstv. dómsmrh. sje sú, að hann geti verið með till. mínum, ef hann tekur sínar aftur. Það er nógur tími til þess að koma þessu máli gegn síðar, þótt það dagi uppi nú.

Hv. 3. landsk. þm. lýsti ánægju sinni yfir því, hve þetta mál væri nú langt komið. Mig undrar það ekki. Hann hefir jafnan, frá því hann fyrst kom á þing, verið með því að svifta verkafólkið kosningarrjetti sínum á þennan hátt. Hann vill ekkert gera úr þeim óþægindum, sem fólki er bakað með því að láta kosningarnar fara fram yfir sumartímann. Hann lokar augunum alveg fyrir því, að verkafólkið verður að hverfa fyrirvaralaust að heiman yfir sumarið, vegna atvinnu sinnar, og oft og tíðum áður en framboðsfrestur er útrunninn, svo að það hefir engin tök á að fylgjast með framboðunum. Auk þess liggur nokkur grunur á því, að hreppstjórar og aðrir embættismenn leiki það að segja mönnum rangt til um bókstafi listanna. Jeg þekki þess dæmi frá Austurlandi, að kjósendur hafa verið tældir á þennan hátt. (PH: Hvernig er það á Vesturlandi?). Þaðan er ekki betri sögu að segja, nema ef verri væri, þar sem var kosningaverksmiðja íhaldsins í Hnífsdal. Það er því ekki fjarri líkindum, að þessa sjeu dæmi á hverju landshorni.

Hv. 3. landsk. þm. sagði, að menn væru nú yfirleitt fallnir frá því að láta kosningar fara fram á ólíkum tíma í hinum ýmsu kjördæmum. Jeg veit nú ekki betur en að fordæmi sje fyrir þessu í Svíþjóð, þar sem kosningar standa þar yfir í 2 mánuði. Svíar eru gömul menningarþjóð, sem við gætum margt lært af, svo að jeg býst ekki við, að þeir mundu halda neinu því formi, sem ekki er gott og gilt stjórnarfarslega sjeð. Enda fæ jeg ekki sjeð, að nokkuð sje á móti því að hafa kjördagana tvo. Jeg skal gjarnan ganga inn á það, að bændum sje veittur annar kjördagur en kaupstaðabúum. Jeg skal gjarnan taka höndum saman við íhalds- og Framsóknarflokkinn um það að lögskipa 1. júlí sem kjördag fyrir sveitirnar, en ef þessir flokkar vilja ekki samkomulag um þetta, þá er það af því, að þeir ætla að sýna ranglæti.