18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

47. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Eftir atkvgr., sem fram fór við 2. umr. málsins, gerði jeg ekki ráð fyrir, að það hefði nokkra þýðingu að koma með brtt. við frv. nú. Það mun líka vera þýðingarlaust að tala fleira um málið. Hinsvegar vildi jeg benda á atriði, sem mjer láðist að taka fram við 1. umr., en það er um erfiðleika hinna yngri kjósenda til að neyta kosningarrjettar síns. Þá sýndi jeg fram á, með þeim skýrslum, sem jeg las upp og fjölluðu um landskjörið, að það höfðu miklu fleiri kosið 1. vetrardag en 1. júlí árið 1926.

Þó var blíðviðri 1. júlí og dagurinn talinn mjög heppilegur fyrir sveitirnar. Jeg sýndi fram á, að það hefðu kosið fleiri konur um haustið heldur en um sumarið, og kjörfundarsóknin þá yfirleitt verið meiri á landinu.

Meiri hluti fólks í kaupstöðum á aldrinum 25–30 ára dvelur fjarri heimili sínu í atvinnu og atvinnuleit um sumarmánuðina. Þess vegna verða miklu meiri vanhöld á atkv. þessa fólks við kosningar að sumrinu heldur en á haustin. Ef á að sýna þessari kynslóð, sem er að alast upp í kaupstöðunum, þann fjandskap, að láta kosningar fara fram á þeim tíma, sem fólkinu er erfiðast að sækja kjörfundi, þá kemur fram hjá því kuldi til sveitanna, sem jeg efast ekki um, að þeim komi illa. Kjördæmaskiftingin á landinu er nógu fráleit og ranglát, þó að því sje ekki bætt við, að setja kjördaginn á þeim tíma árs, sem þessum íbúum kaupstaðanna er illmögulegt að neyta atkvæðisrjettar síns.

Þó að jeg viti það vel, að jeg er hjer að tala fyrir daufum eyrum, þá vil jeg minna hv. þm. á að athuga það til næsta þings, hvort samviskubit þeirra af því að hafa framið þetta ranglæti nú gerir þá ekki tilleiðanlegri til að leiðrjetta það aftur á næsta þingi. Jeg skal lofa því og sjá um, að þeim verði veitt tækifæri til þess.

Jeg hefi ekki sundurliðaða skýrslu um kjörsókn fólksins við kjördæmakosningar, en get þó hugsað mjer, að það myndi sýna sig, að tiltölulega mikið fjölmennari hópur kæmi til kosninga af hinu yngra fólki 1. vetrardag en 1. júlí.

Jeg veit, að það verður nú, eins og oft áður, bent á þá möguleika fyrir kaupstaðakjósendur að kjósa utan kjörstaðar, eða skila atkv. sínum til kjörstjóra áður en þeir fara frá heimilum sínum. Jeg hefi áður bent á, að þetta þýðir lítið á annríkistímanum fólkið er með allan hugann við það, hvernig það geti sem best bjargað sjer, en ekki við stjórnmálin, og gleymir því svo að kjósa.

Jeg er sannfærður um, að hv. þm. fá engar þakkir hjá kjósendum fyrir að hafa samþ. þetta frv. Það mun miklu fremur koma í ljós, að almenningur lítur á það sem eitt af þeim stærri óhappaverkum, sem unnin hafa verið á Alþingi.