16.03.1929
Efri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Jón Þorláksson:

Jeg er ekki sjerfræðingur að því er snertir sjávarútveg eða fiskiveiðar, en þau ummæli mín, að Skagaströnd yrði mikil fiskiveiðahöfn, bygði jeg á áliti sjerfróðra manna í þessum efnum. Jeg minnist þess, að nýlega sagði einn fiskiveiðafróður maður við mig, að það liðu ekki nema fáein ár, þangað til fiskútflutningurinn frá Húnaflóa næmi 20 þús. skippundum á ári, ef á annað borð yrði mögulegt að stunda þar fiskveiðar. Jeg held, að sjávarútvegurinn sje í uppgangi þar, eins og víða annarsstaðar, bæði vegna hagstæðs veðurs og ríkulegra aflabragða á grunninu síðastliðin ár, og ekki síður vegna hins, að menn eru nú farnir að taka upp smábáta með hreyfivjelum, sem gefa góða raun, þar sem róðrarbátar voru notaðir áður. Og jeg held, að við megum búast við framhaldi á aukningu þessa atvinnuvegar við Húnaflóa sem annarsstaðar. Mjer er kunnugt um það, að aðsókn aðkomubáta er mikil á Skagaströnd, og reyndar alstaðar þar við Húnaflóa, sem hægt er að hafa báta, en mjer er sagt, að á Skagaströnd sje ekki pláss fyrir neitt það, sem heitir aðkomubátur. Þeir möguleikar skapast fyrst með hafnargerðinni.

Þegar jeg hreyfði því að setja inn í frv. ákvæði um, að hafnarsjóðurinn skyldi hafa tekjur af fiskibátum sjerstaklega, var það ekki eingöngu með tilliti til þessa máls, heldur einnig af hinu, að jeg held, að ef við eigum að geta haldið áfram að koma upp fiskiveiðahöfnum, verði löggjöfin að beinast inn á þessa braut, til þess að tryggja hafnarsjóðunum tekjur og gera fyrirtækin framkvæmanleg. Það hefir verið venjan, að ríkissjóður legði fram 1/4. kostnaðar til gerðar fiskiveiðahafna. Mun þó einhversstaðar hafa verið farið fram á hærra tillag, en ekki fengist til þessa. Þannig mun vera háttað um hafnargerðina í Ólafsvík. Þar var ákveðið 1/4 framlag úr ríkissjóði, en úr framkvæmdum hefir lítið orðið. Þó hefir þar verið gerð byrjun til bátahafnar og veittar til þess smáupphæðir á undanförnum þingum. En það er of hátt, að ætla hlutaðeigandi hjeruðum að bera 3/4 kostnaðar með þeim tekjum, sem hafnarsjóðunum eru heimilaðar, og menn mega ekki miða við það hlutfall, enda fæst ekki nógu traustur grundvöllur með þannig skiftum kostnaði.

Það má auðvitað segja, að það víðar en á Skagaströnd arðvænlegt að gera fiskiveiðahafnir. En jeg held, að það verði ekki víða bent á víðáttumeiri fiskimið og meira hafnleysi en er við Húnaflóa austanverðan, að Suðurlandsstrandlengjunni undanskilinni.

Út af brtt. hv. sjútvn. vil jeg lýsa yfir því, að jeg er á móti þeirri fyrri. Hin er að efni til rjettmæt og mun jeg því greiða henni atkv., þó að þar standi að vísu önnur tala en á að vera, ef sú fyrri verður feld.