21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Jón Jónsson:

Jeg hefi ásamt hv. þm. A.-Húnv. leyfi mjer að bera fram brtt. við þetta frv. eins og það var samþ. við 2. umr. í þessari hv. deild. Þegar um er að ræða að veita fje úr ríkissjóði til hafnargerðar, kemur til athugunar, hvort mikil þörf er á verslunarhöfn, síldveiðahöfn eða fiskiveiðahöfn á viðkomandi stað, og hvort kostnaðurinn standi í rjettu hlutfalli við það gagn, sem höfnin kemur til með að gera. Húnaflói hefir lengi haft ilt orð á sjer fyrir hafnleysi, og kvað um tíma svo ramt að, að gufuskipafjelögin ljetu skip sin iðulega sigla þar framhjá. Jeg hygg, að of mikið hafi verið gert úr, hvað Húnaflóahafnirnar sjeu slæmar, en svo mikið er víst, að skip hafa oft tafist þar vegna hafnleysis, til stórtjóns fyrir fjelögin og fólkið í hjeraðinu. Hefir það lengi verið áhugamál og framtíðardraumur flestra áhugasamra manna í Húnavatnssýslu, að fá góða höfn á Skagaströnd sem þrautalendingu þegar fokið væri í önnur skjól. Þessi höfn á Skagaströnd (eða Höfðakaupstaður) er ein af allra elstu og þektustu höfnum landsins. Hún hefir tvo osti, en einn galla. Kostirnir eru þeir, að þarna er auðvelt að gera góða höfn, og staðurinn liggur vel við fiskiveiðum og góð skilyrði til þess að þar risi upp blómleg síldarstöð með tímanum. Aftur á móti liggur höfnin illa við innanhjeraðssamgöngum og flutningar að og frá henni eru ekki miklir, sennilega ekki mikið yfir 800 smálestir alls á ári. Einnig býst jeg við, að íbúum hjeraðanna mundi falla illa að hugsa sjer Skagaströnd sem aðalútflutningsstöð hjeraðsins. Blönduósi er miklu betur í sveit komið; þar er stærri kaupstaður, stór verslunarhús, nýtt frystihús o. fl. byggingar. Þar er allgóð bryggja norðan Blöndu, og var miklu fje varið til bryggjugerðarinnar frá hjeraðsbúum sjálfum. Kemur hún að svo góðu gagni, að þarna er hægt að afgreiða skip nema í aftakaveðri. Skagaströnd yrði því ekki mjög mikils virði sem verslunareða útflutningshöfn, en hún yrði mjög mikilsverð þrautalending fyrir allan Húnaflóa og þýðingarmikil sem slík. Aðalgagn hafnarinnar verður ekki fyrir verslunarsamgöngur, heldur fyrir síldarútveginn um síldveiðitímann og sem fiskveiðahöfn. Mikið af þeirri síld, sem lögð er á land á Siglufirði, er veidd á Húnaflóa, og er það vægast sagt öfugstreymi, að sigla með allan þann afla alla leið til Siglufjarðar til verkunar. Það er kunnugt, að á Húnaflóa er gott til fiskjar, og má fá þar mikla veiði, ef kostur væri góðra hafna. Síðasta ár veiddust þar sem svarar 100 smálestum af þurrum fiski, en það er fullvissa, að þar verði gerðir út helmingi fleiri bátar næsta sumar, og allar líkur til þess, að útgerðin margfaldaðist, ef höfninni væri fullur sómi sýndur. Sjerstaklega mundi vjelbátaútvegurinn aukast, því að þegar lítill afli er fyrir sunnan og vestan, er oft mikil fiskiganga í Húnaflóa, og er þá gott fyrir bátana að leita til Skagastrandar. Bátar frá Ísafirði koma oft þangað til veiða og snúa svo heim aftur með góðan afla. Af þessu er augljóst, að höfnin á Skagaströnd mundi hafa í för með sjer aukna framleiðslu á fiski að miklum mun; hún yrði ekki nema að litlu leyti verslunarhöfn, heldur þrautalending og síldar- og fiskiver. Hafnargerðin þar er því miklu fremur landsmál en hjeraðsmál Austur-Húnvetninga, þótt þeir hafi manna best opin augun fyrir þörfinni. Ber nú að líta á, hvort aðrar hafnir sjeu annarsstaðar á landinu, sem eigi að sitja fyrir þessari. Á þinginu 1915 var samþ. þál. þess efnis, að útvega hafnarverkfróðan mann til þess að athuga, hvar arðvænlegast væri og þýðingarmest fyrir fiskiveiðarnar, að gerðar væru hafnir og lendingarbætur. Samkv. þessari þál. var danskur maður, Kirk, fenginn til að rannsaka skilyrði fyrir hafnarbótum kringum alt land. Hann rannsakaði 42 staði, og um þá rannsókn er til skýrsla, sem hinir eldri þm. kannast víst vel við. Hann taldi æskilegt, að gerðar væru smærri hafnarbætur á allmörgum stöðum, en stærri hafnarbætur á 10 til 12 stöðum. Á flestum þessum stöðum er kostnaðurinn mikill og aðstaðan erfið, svo ekki hefir þótt gerlegt að ráðast í miklar framkvæmdir. Höfuðáhersluna leggur Kirk á 3 hafnir, sem sje Þorlákshöfn, Skagaströnd og Ólafsvík. Þetta sjeu þær hafnir, sem fyrst eigi að koma upp. Af þessum höfnum er Þorlákshöfn langdýrust, og mun hún vera svo kostnaðarsöm, að það getur vart talist kleift að ráðast í hana. Hefir nú lengi verið hljótt um það mál og ekki komið neinar kröfur frá hjeraðsbúum um það. Væri sú höfn þó mjög æskileg, þar sem bestu fiskimiðin liggja þar undan landi. Af þessu sjest, að Kirk setur Skagaströnd efsta á blað með þeim allra nauðsynlegustu höfnum á landinu, og það varð meðal annars til þess að sannfæra mig, sem er ófróður um sjávarútvegsmál, um, að það væri fullkomlega rjettmætt að koma þar upp höfn. Hv. sjútvn. hefir líka sjeð nauðsynina, en svona fyrirtæki verður ríkissjóður að styrkja ríflega í byrjun; annars eru litlar líkur til þess, að málið komist í framkvæmd fyrst um sinn. Jeg skal játa, að væri til hafnarsjóður, væri sjálfsagt að nota hann svo sem hann hrykki, en því láni er ekki hjer að fagna; hann er enginn til. Hinsvegar er ekki von, að Austur-Húnavatnssýsla, sem er nær eingöngu landbúnaðarhjerað og verður vonandi í framtíðinni, vilji taka á sig ábyrgð á 1/2 milj. kr. láni í þessu skyni. Sýslusjóður er líka í allmiklum skuldum sem stendur, enda hefir ráðist í stórkostlegan kostnað við byggingar, svo sem kvennaskóla, frystihús og bryggju, og auk þess varið afarmiklu fje til vegagerða. Vextir af stórláni til hafnargerðar, sem með tímanum gætu greiðst úr hafnarsjóði, mundu nú til að byrja með hvíla með ægilegum þunga á herðum hjeraðsbúa sjálfra. Tel jeg því illa farið, að þessi hv. deild skyldi lækka ríkissjóðsframlagið frá því, sem það var, þegar það kom frá hæstv. stj. Þess vegna hefi jeg borið fram brtt. þess efnis, að til hafnargerðarinnar veitist úr ríkissjóði 2/5 stofnkostnaðar, og vænti jeg þess fastlega af hv. d., að hún sjái, að betra er að leggja meira fram í byrjun heldur en að taka á sig stórfeldar ábyrgðir, sem svo gætu ef til vill síðar meir fallið á ríkissjóð. Þætti mjer ilt, ef Húnavatnssýsla yrði að hlaupa frá sínum skuldbindingum; jeg hefi það mikinn metnað fyrir hennar hönd. Hv. þdm. hafa sagt, að þetta aukna framlag gefi ilt fordæmi, en nú vill svo til, að eftir skýrslu Kirks er engin höfn sambærileg við Skagaströnd, nema Ólafsvík, og sje jeg ekki ástæðu til annars en að gera þeim jafnt undir höfði, sjeu skilyrði þar lík.

Um 2 síðustu liði brtt. minnar er það að segja, að þeir eru settir til þess að tryggja frekari tekjur handa höfninni, ef á þarf að halda. Síðasti liðurinn er gerður eftir bendingu hv. 3. landsk., sem talaði um málið af skilningi og velvilja. Vona jeg svo, að brtt. mínar fái stuðning frá hæstv. stj. og verði samþ. hjer í hv. deild.