21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Jón Jónsson:

Jeg get þakkað hv. 3. landsk. hinar hlýlegu undirtektir hans við till. okkar, en jeg get því miður ekki þakkað hv. frsm. Hann hjelt því fram, að sýslunni ætti ekki að vera þetta mikill kostnaður, því að hafnarsjóður mundi greiða það fje, er fram í sækti. Þó skautst það fram úr hv. framsögumanni, að það geti verið dálítill baggi fyrir sýslusjóð að sjá fyrir vöxtum af alt að 1/2 miljón króna, enda þótt megi gera sjer von um endurgreiðslu. Þá kom hv. frsm. með það ágæta fyrirheit, að ef illa færi, myndi ríkissjóður hlaupa undir baggann og taka á sig skellinn. Jeg er nú ekki þingvanari en svo, að mjer finst það vandræða hugsunarháttur, að opinber fyrirtæki sjeu rekin áfram af einstökum hjeruðum eða aðiljum í því trausti, að ekkert geri til um fjárhagsafkomuna, því ríkið beri skellinn ef á þarf að halda. Vona jeg, að Húnvetningar þurfi aldrei að nota sjer slíkt.