22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. frsm. flytur brtt. á þskj. 382 um að fella úr frv. öryggisákvæði, sem sett voru inn í hv. Ed. Jeg skal strax taka það fram, að það var jeg, sem setti þessi ákvæði inn í frv., með fullu samþ. þeirra hv. þm. í Ed., sem heima eiga í Húnavatnssýslu, hv. þm. A.-Húnv. og hv. 6. landsk. Jeg hefði ekki borið þetta fram, ef þeir hefðu verið því mótfallnir.

Skoðun mín á þessu atriði breyttist ekkert við ræðu hv. frsm. Jeg skal engan dóm leggja á það, og það getur víst enginn hjer í hv. deild, hvernig hafnargerð á Skagaströnd muni bera sig fjárhagslega. Um það er enga áætlun hægt að gera. En hitt vil jeg fullyrða, að þegar eitt sýslufjelag ræðst í jafnstórfelt fyrirtæki og hjer er um að ræða, þá er aldrei of varlega farið.

Nú vil jeg geta þess í þessu sambandi, að á þeim stöðum sumum, sem hafnarmannvirki hafa verið gerð, og miklu meiri líkur voru fyrir en á þessum stað, að þau gætu borið sig, þá hafa þau ekki gert það. Með það fyrir augum virðist mjer það sjálfsögð skylda þingsins að setja svo tryggar varúðarráðstafanir sem hægt er fyrir því, að sýslufjelagið fari ekki að binda sjer stærri bagga með ábyrgð sinni en það að vel athuguðu máli telur fært. Hv. frsm. virtist vilja telja þessi ákvæði frv. hálfgildings hjegóma. Taldi hann, að ef meiningin með þeim væri sú, að leita eftir nokkurskonar þjóðarvilja í sýslunni í þessu máli, þá þyrfti að leysa upp sýslunefndina og kjósa nýja með þetta mál fyrir augum. Þetta er nú rjett að því leyti, að þessi ákvæði miða að því að fá fram athugun og vilja sýslubúa um þetta mál. En að leysa upp sýslunefndina gat ekki komið til mála, vegna þess, að það er gagnstætt lögum og því engin heimild til þess, þótt svona mál liggi fyrir. Var því ekki um aðra leið að ræða en þessa, að leggja málið undir álit og samþykki tveggja sýslufunda. Og þegar málið hefir fengið athugun og samþykki eins sýslufundar, mun það verða tekið til nánari athugunar heima í hreppum sýslunnar og þar tekin afstaða til þess. Sýni það sig þá, að almennur áhugi er fyrir þessu máli, þá verður það enn hiklausara samþ. á næsta sýslufundi. Með þessu fæst meiri trygging fyrir því, að málið verði vel hugsað, heldur en ef t. d. einn sýslufundur samþ. það með t. d. 1 atkv. meiri hl. Hygg jeg, að þegar um það er að ræða, að sýslan stofni sjer í mörg hundruð þús. kr. ábyrgð, þá sje vel forsvaranlegt, þótt varlega sje farið. Og sje hjer um almennan vilja hjeraðsbúa að ræða, þá sje jeg ekki, að málinu sje teflt í neinn voða með þessu, eða að neinn þröskuldur sje lagður í veg fyrir málið. Sje svo um sjeð, að almennur vilji fái að koma fram í málinu, og hallist hann að því, að rjett sje að framkvæma verkið, þá mun heldur ekki skorta nægilegt magn atkv. í sýslunefndinni. Og þá eru heldur engar líkur til, að gott málefni komist ekki í framkvæmd, þótt set sjeu skilyrði í frv. um að gætt sje fylstu varúðar.