22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hannes Jónsson:

Ef hv. frsm. hefir skilið orð hæstv. fjmrh. á þá leið að jeg hafi sem þm. V.-Húnv. eitthvað lagt til þessa máls, sem mjer þó helst virtist, þá vil jeg láta hv. þm. vita, að það er alger misskilningur. Jeg geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. hafi átt við hv. þm. A.-Húnv. og hv. 6. landsk., sem báðir eiga heimili í þeirri sýslu, sem hjer um ræðir.

En fyrst jeg stóð upp, þá get jeg lýst yfir því áliti mínu, að jeg tel fylstu ástæðu til þess, að samþ. sjeu ákvæði frv. um það, að mál þetta skuli samþ. á tveimur sýslufundum og með þeim atkv.fjölda, sem þar greinir. Jeg hygg, að þetta mál hafi enn verið lítið athugað á fundum í sýslunni, og því fylsta ástæða til að það sje gert áður en endanlega verður gengið frá málinu. Samþykt þessa máls á sýslufundi mun vekja menn til nýrrar umhugsunar um málið, sem þá ætti að geta legið svo skýrt fyrir, að menn gætu tekið aðstöðu með því eða móti. Og kæmi það þá í ljós, að sumir hreppar sýslunnar yrðu algerlega andvígir því að ráðast í þessa framkvæmd, þá hygg jeg, enda þótt sýslunefndarmenn yrðu hinir sömu, að þeir treystu sjer naumast til að samþ. það á ný, gegn eindregnum vilja hreppsbúa sinna. Framkvæmd verksins mundi þá dragast þar til almennur áhugi væri fenginn fyrir málinu. Með þessum orðum mínum er jeg ekki að spá neinu um það, að svona muni fara. Og þau ber heldur ekki að skoða sem neina andúð frá minni hálfu til þessa máls. En hitt vil jeg undirstrika, að jeg tel ekki leggjandi út í framkvæmd sem þessa, nema málið sje vel undirbúið í hjeraðinu og almennur áhugi fyrir því. Og hjer er um svo stóra upphæð að ræða, 700–800 þús. kr., að jeg tel sjálfsagt að fara varlega og gera lögin sem tryggilegast úr garði, án þess jeg vilji þó gera neitt, sem aftrað geti framkvæmd þessa máls, þegar hjeraðið sjálft er einhuga um að hefjast handa.

Jeg er ekki nægilega kunnugur því, hver áhugi muni vera fyrir þessu máli í Austur-Húnavatnssýslu. En það má þó byggja á því, að hann sje nokkuð almennur, þar sem frv. þetta er fram komið. En þó verð jeg að segja það, að þær framkvæmdir sumar, sem gerðar hafa verið í A.-Húnavatnssýslu á undanförnum árum, beinlínis draga úr því, að höfn verði bygð á Skagaströnd. Eins og kunnugt er, var fyrir nokkrum árum bygð bryggja á Blönduósi, sem kostaði 60–70 þús. kr. Var sú bryggja að öllu leyti mislukkað fyrirtæki og er nú að verða ónýt. Nú hefir verið bygt stórt frystihús á Blönduósi. Ef almennur áhugi hefði verið fyrir hafnargerð á Skagaströnd, virðist mjer ekkert vit í því að byggja það þarna. Og mjer virðist bygging þess bera vott um það, að menn hafi ekki alment gert sjer vonir um þá höfn á næstu árum. Því hefði svo verið, þá var fásinna að byggja frystihúsið á Blönduósi með jafnerfiðri framskipun og þar er. En 18 km. norðar og eftir góðum vegi að fara væri svo höfn, þar sem ágætt væri um framskipun og aðstaða öll góð. Að flytja frosna kjötið í bílum frá Blönduósi til Skagastrandar kemur vitanlega ekki til mála.

Mjer virðist að þessu athuguðu fylsta ástæða til þess að afgreiða þetta mál svo frá þinginu, að einstakir menn, sem góða trú hafa á málinu og áhuga fyrir því, fái eigi hrundið málinu til framkvæmda og bundið sýslufjelaginu þunga bagga án vilja alls almennings. Og mjer virðast ákvæði þau, sem hv. Ed. setti inn í frv., virkilega tryggja það, að ekki verði handa hafist fyr en meiri hl. sýslubúa er í raun og veru málinu fylgjandi. Hv. frsm. vildi að vísu halda því fram, að atkvgr. í sýslunefndinn hlyti að verða óbreytt með sömu mönnum. En jeg hefi fulla trú á því, að ef það kæmi í ljós, að þeir hefðu greitt atkv. með málinu í fullri andstöðu við sveitunga sína, þá mundu þeir naumast samþ. það aftur. Til þess er hjer um of gætna menn að ræða. Ef þetta mál þar á móti liggur fyrir aðeins einum sýslufundi og nær þar samþykki með aðeins litlum meiri hl. atkv., þá er þetta mál enn svo lítið rætt í sveitum sýslunnar, að þótt síðar verði hreyft andmælum, þá geta sýslunefndarmennirnir þvegið hendur sínar og sagt, að þeir hefðu ekkert vitað um þessa andstöðu sveitunga sinna gegn málinu. Hingað til hefir mál þetta verið lítið rætt og engin andstaða komið fram gegn því, af þeirri ástæðu, að jeg hygg, að lítil trú hefir á því verið, að til framkvæmda mundi draga á næstu árum. Jeg er þó ekki með þessu að segja, að andstaða gegn málinu sje til. Jeg vil aðeins sýna það, að ekki er hægt að byggja á því, að hún sje ekki til, vegna þess hve mönnum hefir virst framkvæmd verksins standa fjarri og því lítið verið um það talað.

Jeg mun svo greiða atkv. móti brtt. við 2. gr., en með frv. í heild, þar sem mjer virðist svo frá málinu gengið, að trygt sje, að ekki dragi til framkvæmda nema fullur vilji sje fyrir því í hjeraðinu. Og sje svo, þá tel jeg ekki rjett að neita um þá hjálp, þótt takmörkuð sje, sem í þessu frv. felst. Hitt dreg jeg þó í efa, að hjer sje um mjög mikla samgöngubót fyrir hjeraðið sjálft að ræða. Jeg hygg, að hagur ríkisins af henni muni verða meiri en hjeraðsins og því ekki ástæðulaust, að ríkið legði ríflega fram, ef í þessa hafnargerð verður ráðist.