22.04.1929
Neðri deild: 51. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð. Jeg vildi geta þess, að eftir því, sem sagt er af kunnugum mönnum, þá mun vera hægt að gera góða mótorbátahöfn á Skagaströnd fyrir rúm 100 þús. kr. Og jeg get hugsað mjer, að þó að reynt sje að taka munninn nokkuð fullan með þessu frv., þá muni þetta verða látið nægja fyrst um sinn. Jeg get ekki sjeð, að það sje neitt hættulegt að veita þá heimild, sem í þessu frv. felst, því að ekkert verður gert að framkvæmdum fyrri en þingið hefir veitt til þess fje í fjárlögum. Hvort síðari hluti 2. gr. er feldur burt úr frv., skiftir ekki miklu máli; þó getur það komið sjer vel. En eftir þekkingu minni á þeim mönnum, sem hjer eiga hlut að í hjeraði, þá held jeg, að þeir flani ekki að órannsökuðu máli. Jeg er sannfærður um, að það verður farið hægt á stað í þessu máli, og jeg segi þessi fáu orð til þess að sýna fram á, að það verður ekkert gert í því nema sýn þyki, að það komi að góðum notum. Jeg vildi ennfremur benda á, að hjer er aðeins um framtíðarloforð að ræða frá Alþingi, en ákvörðun verður tekin um það síðar með fjárveitingu í fjárl. Jeg vildi með þessu slá niður þann ótta, sem vera kynni meðal hv. þdm. um það, að hjer muni verða rasað fyrir ráð fram; jeg er fullviss um, að svo verður ekki. Jeg þekki svo vel til þeirra manna í Húnavatnssýslu, sem um þetta mál munu fjalla. Mjer fanst á ræðu hæstv. fjmrh., að á bak við feldist hjá honum ótti um, að hjer mundi verða farið lengra en sýslufjelagið þyldi. Þó að einn hreppur komi til með að njóta hjer aðallega góðs af, þá eru fleiri blómleg sveitarfjelög í sýslunni, sem hafa hag af fyrirtækinu. Og jeg er viss um, að þau leggja sig ekki í hættu af þessu máli án þess þau sjái, að þau fái uppborið það fje, sem lagt yrði í fyrirtækið.