29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg er ekki ánægður með till. n., þó að hún sje að vísu til nokkurra bóta. Mjer finst lítil ástæða til þess að hið opinbera, er leggur til alt fjeð, sýslan og ríkið, skuli ekki líka geta eignast þá hækkun á lóðum, er stafar af því að höfnin verður bygð. En að því miðar brtt. mín. Er þar gert ráð fyrir því, að hreppsnefndin fái heimild til að taka eignarnámi lönd og lóðir einstakra manna, er að höfninni liggja og nauðsynleg kynnu að verða fyrir höfnina eða kauptúnið. Þykir mjer ekki ólíklegt, að hreppsnefndin láti gera þetta, áður en ráðist er í stór mannvirki þarna. Finst mjer, að eigandi hlutaðeigandi jarða, sem reyndar mun vera fús til þess að selja, geti ekki talið sig tapa neinu, þó eignarnám verði framkvæmt, enda er ekki víst, að það sje neitt á móti hans vilja. En þetta er góður varnagli fyrir hreppsnefndina til þess að geta haft verðhækkunina í hendi sjer. Vona jeg því, að hv. deild samþ. þessa brtt. okkar fjelaga.