29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg hefi ekki þessi lög, er hv. 1. þm. Skagf. talaði um, við hendina, en jeg veit, að þau eru ekki svo úr garði gerð, að hið opinbera geti samkv. þeim náð til sín verðhækkun á löndum og lóðum, er leiðir af gerðum mannvirkjum eða umbótum. En ef slík eignarnámsheimild og hjer er farið fram á verður samþ., þá hlýtur það að leiða til þess, að öll verðhækkun á þessum lóðum rennur til hins opinbera. Verður því auðsætt gagn að því fyrir hafnarsjóð að hafa þessa heimild. Vonast jeg til þess, að hv. dm. veitist ekki gegn henni, þar sem auðsætt er, að hún skaðar engan, en getur þó orðið að miklu gagni.