29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg skildi hv. 2. þm. Reykv. svo, sem hann saknaði í frv. heimildar til þess að taka land undir hafnargerðina. (HV: Ekki hafnargerðina). Jeg heyrði ekki betur. (HV: Mjer þótti vanta heimild fyrir höfnina að taka eignarnámi land, sem kemur til með að liggja að henni). Nú, það er þá ekki ráð nema í tíma sje tekið. En jeg held þess þurfi ekki, því í 3. gr. frv. eru landeigendur skyldaðir til þess að láta af hendi land undir brautir og vegi og leyfa að tekið sje grjót og möl, eftir því, sem nauðsynlegt er fyrir hafnargerðina, og skal fult endurgjald koma í staðinn. Og í 5. gr. frv. stendur, að umhverfis höfnina megi ekki gera bryggjur eða önnur mannvirki, nje fylla upp eða dýpka, nema eftir till. hafnarnefndar og með samþykki hreppsnefndar Vindhælishrepps.

Það getur verið, að þessi skrifl. brtt. hafi einhverja þýðingu, þó þessi ákvæði sjeu í frv. En meðan þau haldast, sem allar horfur eru til að verði, og meðan allar þær torfærur, er 2. gr. ber með sjer, haldast, þá held jeg, að þessari eignarnámsheimild liggi ekki mikið á. Enda er brtt. sú, er fjallar um hana, bæði of seint fram borin og er auk þess ófullkomin. Að öðru leyti skal jeg ekki láta mig skifta það neinu, þó brtt. sje óformleg, en álít, eins og jeg hefi áður tekið fram, að eins og málið nú horfir við, þá sje hennar ekki brýn nauðsyn inn í frv.