02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Jón Þorláksson:

Jeg vil taka mjög ákveðið undir með þeim, sem vilja reyna að fyrirbyggja hverskonar sviksemi í viðskiftalífinu, og þá einnig sviksemi í sambandi við gjaldþrot, og fólgin eru í því, að menn draga undan eignir sínar. — En jeg verð að taka undir með hv. þm. Seyðf., að mjer finst frv. ekki takast allskostar vel að ráða bót á stærstu ágöllunum á þessu sviði. Það hafa auðvitað komið fyrir undanbrögð hjer á landi eins og annarsstaðar, þegar um gjaldþrot er að ræða. En það er annað atriði, sem mjer finst valda meiri óheilindum í viðskiftalífinu en þessar örfáu undantekningar. Það er tregða þeirra manna, sem í raun og veru eru gjaldþrota, á að gefa sig upp. Það hefir komist inn í meðvitund manna, að það sje einhver óbætanleg hneisa að þurfa að framselja bú sitt til skiftameðferðar, og því er það alt of algengt, að menn haldi áfram atvinnurekstri sínum löngu eftir að þeir eru orðnir þess ómegnugir að geta staðið í skilum. Þetta veldur meiri hættu fyrir alt viðskifalífið en þótt einstaka undantekningar beiti óheiðarlegu atferli, með því að stinga eignum undan eftir að þeir eru búnir að framselja bú sín til skiftameðferðar. Besta breytingin á lögunum og til mests gagns fyrir viðskiftalífið væri sú, ef hægt væri að finna leið til þess að koma mönnum, sem í raun og veru eru gjaldþrota, til þess að fram selja bú sín.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki nema heiðarlegur hlutur að tak?. afleiðingunum af óhöppunum. — Við verðum að minnast þess, að nú standi yfir þeir tímar, að þjóðfjelagið hefi gugnað á að rækja þá skyldu sína að halda gjaldeyrinum í fullu verði. Þegar verðmælirinn fellur og sveiflur komast á gengið, er það alkunna, að afleiðingarnar verða þær, að fjöldi manna kemst á vonarvöl og á ekki fyrir skuldum. Mörg gjaldþrotin hjer á landi stafa af þessu, eða standa í sambandi við þennan misbrest hjá. þjóðfjelaginu á því að rækja skyldu sína. Það er því síður ámælisvert nú þótt menn hafi orðið fyrir slíkum töp um, því að þau eru í mörgum tilfellum minna sjálfskaparvíti en gjaldþrot hafa verið á öðrum tímum.

Ef hægt væri að fá þá menn, sem ekki eiga fyrir skuldum, til þess að gefa sig upp, í stað þess að reyna að dylja hinn bágborna efnahag sinn, væri fengin sú besta bót, sem hægt væri að fá í þessu efni. En jeg er því miður hræddur um, að frv. eins og það nú liggur fyrir verði frekar til þess að gera mönnum erfiðara fyrir með að framselja bú sín. Til að byrja með á að meðhöndla manninn eins og sterkur grunur ljeki á því, að hjer væri um glæp að ræða. Það á að leiða hann fyrir lögreglurjett og þar er heimtuð af honum skýrsla, sem vanalega er aðeins heimtuð af þeim, sem grunaðir eru um glæpsamlegt athæfi. Jeg er hræddur um, að þetta hafi gagnstæð áhrif við það, sem vera þyrfti, en vandi er að finna þá leið, þar sem þessu væri stilt í hóf. Þar sem ástæða er til þess að gruna, að um sviksemi sje að ræða, þarf skjótrar rannsóknar við. Má eflaust með góðum vilja finna einhverja leið til þess að koma fram skjótri rannsókn, þar sem þess þarf við, án þess þó að hræða hina, sem fyrir rás viðburðanna eigi gátu haldið áfram atvinnurekstri sínum, frá því að gefa sig upp. Jeg hefði viljað skjóta því til hæstv. ráðh. og hv. n. með fullri samúð með viðleitni frv., að það þarf líka að gefa gaum að þeim, sem dylja bágan efnahag sinn af ótta við að verða sjer til minkunar við að gefa sig upp sem gjaldþrota, en jeg óttast, að frv. verði til þess að auka á þann ótta, í stað þess að draga úr honum.