02.04.1929
Efri deild: 34. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil aðeins leiðrjetta misskilning, er fram hefir komið í nál. hv. minni hl. í sambandi við frv. eins og það var í fyrra, því að sá misskilningur er mjög almennur. Hv. minni hl. heldur því þar fram, að ef frv. eins og það var í fyrra hefði verið orðið að lögum, þegar kaupfjelagið á Rauðasandi varð gjaldþrota, hefði orðið að athuga fjárhag fjelaganna. Þessi misskilningur hv. minni hl. byggist á ónógri þekkingu á samvinnufjelagslögunum. Þegar kaupfjelag Rauðasands varð gjaldþrota, snerti það S. Í. S. ekki öðruvísi en aðra lánardrotna; það tapaði innieign sinni hjá fjelaginu, en kom ekkert við skuldbindingar kaupfjelagsins við aðra aðilja. Þetta er því misskilningur í nál., enda var frv. ekki breytt af þessum orsökum.

Hv. 3. landsk. viðurkendi, að þess væri full þörf, að haft væri aðhald með fjársvikamönnum. Hinsvegar fanst honum frv. miða heldur í þá átt að hindra fremur en hvetja þá, sem komnir væru að því að hrynja, til þess að segja frá sínum ástæðum. Þetta eru tveir góðir hlutir, en ekki samrýmanlegir. Hygg jeg, að aðeins sjeu til tvær leiðir í þessum efnum. önnur leiðin er sú, að hafa algert eftirlitsleysi með gjaldþrotum, eins og hingað til hefir verið, sem gerir mönnum mögulegt að verða gjaldþrota á sviksamlegan hátt, og það svo, að menn geta haldið áfram atvinnurekstri sínum, t. d. verslun eða útgerð, þrátt fyrir gjaldþrotin. Á þann hátt er gjaldþrota mönnum reidd svo mjúk sængin og hægt er. — Hin leiðin er sú, sem farin er með þessu frv. Þó er nokkuð til í því, sem hv. 3. landsk. sagði, að það getur stafað mikil hætta af því, ef menn draga of lengi að segja frá sínum ástæðum. Álít jeg þó, að hitt leiði meira böl yfir viðskiftalífið, ef ekki er hægt að hafa hendur í hári þeirra manna, fyrir ófullkomið form löggjafarinnar, er stofna til gjaldþrota á sviksamlegan hátt.

Þá fanst hv. þm. það heldur harkaleg meðferð, að allir þurfi að þola frumrannsókn, er um gjaldþrot er að ræða. Það er ekki til þess að væna menn um óheiðarleik, að slíkt er gert; þjóðfjelagið leyfir sjer oft að leiða saklausa menn til frumrannsókna. Þegar kviknar í húsi, eru þeir yfirheyrðir, sem eru bestu vitnin, og haldin rannsókn yfir þeim, en það er ekki vegna þess, að þeir menn sjeu grunaðir um að hafa kveikt í húsinu í glæpsamlegum tilgangi. Heiðarlegur maður, sem orðið hefir gjaldþrota, hefir ekkert að óttast, en miklu fremur alt að vinna. Því að með því móti, að mál hans er rannsakað, kemur sakleysi hans í ljós, en ella gæti hann átt á hættu að liggja undir grun um sviksamleg gjaldþrot alla æfi.

Það er alveg rjett, að það væri æskilegt, að allir þeir, sem eiga ekki fyrir skuldum, lýstu sig gjaldþrota þegar í stað. En mjer finst, að beri að meta hitt meira, þegar kviknar í húsi viðskiftalífsins, að hafin verði rannsókn, er leiði til þess, að hinir seku beri afleiðingar af atferli sínu, en hinir saklausu fái sakleysi sitt staðfest.