29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Frsm. (Magnús Torfason):

Eins og menn sjá á nál. á þskj. 306, hefir n. lagt til, að frv. verði samþ., að undanteknum tveimur nm., sem ekki tóku þátt í meðferð málsins, án þess þó að jeg vilji gefa þeim það að sök. N. hefir gert nokkrar smávægilegar brtt. við frv., og skal jeg nú rekja þær nánar. Um þá 1. er það að segja, að hún er aðeins sjálfsögð leiðrjetting og nauðsynleg. Hvað hinar snertir, þá eru þær aðallega í því fólgnar, að greinarnar eru færðar til betra máls, en í brtt. við 32. gr. felst þó dálítil efnisbreyt. Þar er sú regla, líkt og áður hefir komið fyrir um skipun embættismanna í Rvík, að skiftaráðandi skuli ávaxta fje í sparisjóði, þar sem því verði við komið. Meiri hl. n. hafði í sjálfu sjer ekkert á móti þessu ákvæði, en hann leit þó svo á, að þarna væri fulllangt gengið, því að skiftaráðendur verða að hafa eitthvað af handbæru fje til taks, ef þeir þurfa að greiða reikninga og gjöld fyrir búin, enda væri þeim það hinn mesti trafali, ef þeir þyrftu þá altaf að hlaupa út í sparisjóði til að ná í fje. Það er vani í öllu viðskiftalífi að hafa eitthvað af fje í sjóði, og n. leit svo á, að svo skyldi það einnig vera hjer, en þó ekki svo mikið, að nokkru næmi. Hvort eitt bú fær 5 eða 10 kr. meira í vexti, ef fjeð lægi í sparisjóði, hefir svo lítið að segja, að í það er ekki horfandi, en það, sem aðalþýðingu hefir í þessu máli, er, að búunum verði skift fljótt og greitt. Jeg játa, að hvað þessar ströngu kröfur snertir get jeg ekki verið með frv. nema með nokkrum fyrirvara. Við verðum að athuga það, að sýslumannaembættin voru fyrir 1919 einskonar ljen eða vinnusamningur, því að þeir fengu þá ekki nema lág laun, heldur lágu þau aðallega í ýmiskonar aukagetum, sem embættinu fylgdu. Sýslumenn urðu aftur á móti að borga allan kostnað, sem var samfara embættinu, eins og t. d. húsnæði, skriftir, ferðalög og bækur, sem aðrir embættismenn fengu greitt sjerstaklega eftir reikningi. Það var því nokkurskonar vinnusamningur milli ríkis og sýslumanna. Síðan var ríkið altaf að hlaða nýjum og nýjum störfum á sýslumenn, án þess að laun þeirra hækkuðu, og þá kom það í ljós — sjerstaklega á stríðsárunum —, að sýslumenn höfðu mjög lítil laun og voru eiginlega verst settir af öllum embættismönnum. Svo komu launalögin árið 1919, og þá eru þeir loksins settir á bekk með öðrum embættismönnum og áttu að fá laun sin greidd ásamt smáaukagetu, sem átti að vera nokkurskonar talningarfje eða ábyrgðarfje. Það fer mjög mikið af fje gegnum hendur þessara manna, svo að þeir mega passa sig með að telja ekki rangt. Jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að jeg hefi verið mjög varkár við slíkt, en á þessu hefi jeg þó tapað þúsundum króna. Í launalögunum frá 1919 er svo ákveðið, að sýslumenn skuli fá allan embættiskostnað greiddan úr ríkissjóði, en þegar til kemur, er því ekki framfylgt, og jeg veit þess dæmi, að sýslumenn hafa orðið að greiða fleiri þúsundir úr sínum eigin vasa til þess að standa straum af embættisfærslunni. Þegar svona er í pottinn búið, er ekki hægt að gera strangar kröfur til þessara manna. Ríkið getur ekki krafist annars en að þeir gegni embætti sínu skammlaust, en það er ekki hægt að heimta nostur við embættisfærsluna, nema því aðeins, að þessum mönnum sje útvegað það vinnuafl, sem með þarf. Jeg hefi skýrt dómsmálaráðuneytinu frá þessu, og það hefir játað í samtali við mig, að skrifstofufjeð væri alt of lítið, og bent þá á, að við hefðum ýmsar aukagetur, eins og t. d. rentur af því fje, sem við höfum undir höndum. Ríkið verður að veita sýslumönnum nægilegt fje, ef vel á að vera og ef það á að geta gert strangar kröfur til þeirra. Jeg þykist svo ekki hafa fleira að segja að svo stöddu, meðan ekki er hreyft mótmælum gegn frv. eða brtt. n.