29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil fyrst þakka meiri hl. allshn. fyrir góðar undirtektir og get lýst yfir því, að yfirleitt hygg jeg, að brtt. n. sjeu til bóta. N. hefir viðurkent í verkinu, að hjer er verið að reyna að bæta úr göllum, eða rjettara sagt ástandi, sem er alveg óviðunandi. Jeg vil bæta því við, að þetta frv., sem hjer er til umr., er nauðsynlegt til þess að bæta úr gömlum ákvæðum í þessu efni, sökum þess, hve þjóðlíf okkar er orðið fjölbreytt. Gömlu ákvæðin eru einskisnýt og hæfa nútímanum ekki. Það er orðið alsiða hjer, að þeir, sem mikið fje hafa með höndum, verða skyndilega gjaldþrota, en að gjaldþrotinu afstöðnu koma þeir fram miklu ríkari en áður, þannig að ekki er hægt að skýra það á annan hátt en að þeir hafi dregið fje undan og stungið í sinn vasa. Þetta þarf engan að undra, því að spillingin er orðin svo mikil, að þegar borgararnir sjá, að það er góður gróðavegur að lána fje hjá bönkunum og öðrum lánsstofnunum, gera þeir það og stinga fjenu í sinn vasa, en gerast svo gjaldþrota. Þegar svona er komið, þá er ekki hægt að hugsa sjer meiri spillingu í þjóðlífinu.

Það er ekkert í viðskiftalífinu, sem er þjóðfjelaginu eins áríðandi og það, að gerðir samningar sjeu virtir og að það sje öllum ljóst, að lántakendur verða að borga skuldir sínar meðan nokkur geta er. En ef fjárdráttarbrögð eru framkvæmd með góðum árangri, án þess rjettvísin hafi þar hönd í bagga, þá er þjóðlífið í hættu. En því á að afstýra með heppilegri löggjöf. Hjer er nú verið að gera ítarlegar ráðstafanir vil þess, að gjaldþrot, sem eiga sjer stað, verði athuguð nákvæmlega, líkt og gert er með sjúkdómstilfelli. Það á að rannsaka það, hvort orsökin til gjaldþrotsins í hverju einstöku tilfelli er óhöpp, sem ekki geta talist saknæm, eða hvort um sviksemi er að ræða.

Um fyrirkomulag þessa eftirlits má máske deila. En það er mál manna. einkum fjesýslumanna, sem athugað hafa þetta frv., að það horfði til stórra bóta og væri því eftirsóknarvert að það verði gert að lögum. Hv. frsm. mintist á eina sjerstaka hlið þessa máls, aðstöðu sýslumanna og bæjarfógeta til gjaldþrotabúa, skrifstofuhalds og innheimtu. Þetta er rjettilega athugað. Launakjör presta og sýslumanna báru lengst af merki miðaldafyrirkomulags. En þessu var breytt með núgildandi launalögum. Embættin voru gerð jafnari að tekjum og nokkurt fje veitt til skrifstofuhalds. Nú vil jeg taka það fram, til að fyrirbyggja misskilning, að orð þau, sem hv. frsm. hafði áðan eftir stj., eru ekki sögð af núv. stj., heldur voru þau sögð áður. En þrátt fyrir það, þótt launafyrirkomulaginu væri breytt, þá hefir þó verið nokkurt millibilsástand um launafyrirkomulagið, meðan gamla ljensfyrirkomulagið var að hverfa, en nýi launamátinn að sigla inn. Og á meðan hafa þeir verið illa settir, sem minstar hafá haft aukatekjur, en of lítið skrifstofufje. Síðan launalögin voru sett 1919, hefir máske hvergi verið lagt fram nóg fje til skrifstofuhalds nema hjer í Reykjavík. Stjórnin hefir nú haft nokkurn undirbúning til þess að finna, hvað rjettlátt er í þessu efni. Og sú skipulagsbundna endurskoðun, sem nú fer fram hjá sýslumönnum og bæjarfógetum, ætti að geta gefið þær upplýsingar um þetta, að hægt væri að leggja málið fyrir næsta þing. Þetta, með ákvörðun skrifstofufjár, er framhald á launalögunum frá 1919 og spor að því takmarki að fá nútíðarfyrirkomulag á launamálið. Það á að leggja niður ljensfyrirkomulagið, takmarka stórgróða af embættisrekstri og tryggja fljótari afgreiðslu málanna. Jeg skal játa það með hv. frsm., að það ástand, sem skapað var 1919, þar sem fá embætti fá fullgoldinn útlagðan skrifstofukostnað, en flest ekki, getur ekki staðið lengi. Það er jafnrangt eins og hitt, að greiða of mikið. Slíkt getur ekki lengi haldist, frekar en aðferð sú, sem átt hefir sjer stað um skifti dánar- og þrotabúa hjer í Reykjavík.