29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Hákon Kristófersson:

Það er rjett fram tekið í nál. því, sem 3 hv. allshn.-menn hafa skrifað undir, að jeg tók ekki þátt í afgr. þessa máls. Það getur þó eigi stafað af því, að jeg hafi vanrækt að koma á fundi, heldur mun það vera af því — og furðar mig þó á því —, að mjer hefir ekki verið sagt frá þeim fundi, sem þetta mál var afgr. á. Fyrst var farið lauslega yfir þetta mál og svo var einum manni falið að fjalla um það sjerstaklega. Síðan hefir það verið afgr. á skyndifundi, og get jeg best trúað því, að sá fundur hafi ekki verið reglulegur fundur, því þá mun jeg oftast vera viðstaddur. En mig furðar á því, að hv. frsm. skyldi ekki sýna mjer nál. áður en það var undirskrifað. Slíkt er oft gert og spurt um, hvort nm. geti ekki eftir atvikum verið sammála. Og þótt mig máske skorti „júridiska“ þekkingu til þess að vera vel dómbær um svona mál, þá hefði eigi að síður verið ástæða fyrir hv. frsm. að segja mjer frá afgreiðslu málsins og gefa mjer kost á að líta á nál.

Jeg geri ráð fyrir því, að brtt. n., sem jeg geri ráð fyrir, að hv. frsm. eigi mestan þátt í, sjeu þess verðar, að þær sjeu samþ. En þar sem mig vantar „júridiska“ þekkingu um það að dæma, og heyrði eigi heldur framsöguræðu hv. frsm., þá mun jeg láta þetta mál jafnhlutlaust hjer í hv. d. sem jeg ljet það í n. Býst jeg ekki við, að það breyti neinu um framgang þessa máls; það hefði farið svona hvort sem var.