29.04.1929
Neðri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

23. mál, gjaldþrotaskifti

Frsm. (Magnús Torfason):

Hv. 1. þm. Skagf. vill varpa á mig ábyrgðinni á því, sem l. þessum kann að vera áfátt um. Jeg tek glaður á mig þá ábyrgð. Jeg legg aðaláhersluna á, að sýslumenn sjeu dregnir undan þeirri álösun, sem þeir hafa orðið fyrir upp á síðkastið vegna meðferðar á búafje. Og það gerir mjer þessa ábyrgð, sem hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, ljettbærari, þó að annars sjeu nú fleiri um hana. Jeg hefi kynt mjer nál. minni hl. allshn. í Ed. allrækilega. Sumt af því, sem þar kemur fram, hefir verið fært til betri vegar og felt inn í frv., bæði hjer og í Ed., en sumt er svo vaxið, að það lýsir því helst, að sá maður. sein að þessu nál. stendur. hafi ekki fylgst með kröfum tímans í þessu efni nje þeim skoðunum, sem nú sem stendur ríkja á þessum málum. Jeg skal aðeins drepa á eitt atriði þessu til stuðnings. Krafan um að sjerstaka áherslu skuli leggja á að gæta rjettar forgönguhafa er nú orðin úrelt. Nú er uppi sú stefna, að rjett sje að minka þennan rjett forgönguhafa, til þess að gera hið almenna viðskiftalíf tryggara.

Það gladdi mig, að hv. 1. þm. Skagf. taldi rjett, að ríkið greiddi kostnaðinn, sem leiðir af þessum rannsóknum. Jeg er honum sammála um það, að ákvæði 32. gr. frv. gildi aðallega um kaupstaðina, og skal því ekki fara frekar út í það. Jeg óskaði eftir viðskiftum við sparisjóð Árnessýslu um búafje, en gat ekki fengið þau, vegna þess að sjóðurinn hafði ekki fje handbært. Annars snertir þetta lítið sýslumenn til sveita. — Annað þarf jeg svo ekki að taka fram að sinni.