23.02.1929
Efri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil geta þess, og er það í samræmi við það, er jeg sagði áðan, að að svo vöxnu máli hefir stj. eigi sjeð sjer fært að gera neina sundurliðaða kostnaðaráætlun um fyrirtæki þetta. Hinsvegar get jeg skýrt frá því, að jeg hefi rætt þá hlið málsins við Skúla Guðjónsson lækni, og hefir hann gert lauslega áætlun um kostnaðinn. Áleit jeg þó eigi rjett að láta þá áætlun koma í grg. frv.

Jeg hefi ekki borið frv. þetta formlega undir læknadeild háskólans, nje þá er fyrir efnarannsóknarstofu ríkisins standa. Annars hefi jeg, eins og jeg gat um áðan, aðallega rætt þetta við Skúla Guðjónsson og svo ýmsa menn í Búnaðarfjelagi Íslands.

Hv. 5. landsk. þótti mál þetta merkilegt; þótti mjer því undarlega við bregða, er hann kvaðst eigi geta greitt því atkv. til nefndar, nema hann fengi upplýsingar um kostnað þann, er af stofnuninni mundi leiða. Vona jeg, að það, sem jeg nú hefi sagt, geri það að verkum, að hann geti ljeð því atkv. sitt til nefndar.