16.04.1929
Neðri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

N. hefir athugað frv. þetta ásamt þeim till., er fram hafa komið um breyt. á símalínum landsins. N. hafði um mál þetta fund með landssímastjóra og hefir einnig fengið frá honum mjög ítarlegt álit um allar till. Skal jeg með örfáum orðum víkja að þeim breyt., er n. vill gera á frv. og þeim brtt., sem fram hafa komið við það og sem eru óvenjumargar.

Við línu frá Hvammstanga um Stóra-Ós, Lækjamót o. s. frv. vill landssímastjóri gera þá breyt., að ekki verði þarna óslitin lína kringum Vatnsnes, heldur verði þar 16 km. autt bil og nái línan frá Hvammstanga að Vesturhópshólum, með hliðarlínu að Víðidalstungu á annan veginn, en á hinn veginn til Hindisvíkur. Segir landssímastjóri, að á þann hátt sparist 8 km. löng lína, en aðalástæðan til þess, að hann vill hafa þarna autt bil, er sú, að hann telur, að landssíminn mundi ella missa tekjur og eftirlitið með stöðvunum af hendi landssímans yrði ekki framkvæmanlegt svo í lagi væri.

Yfirleitt er það að segja, að landssímastjóri leggur á móti því, að ákveðið verði í lögunum, hvar stöðvar skuli koma, í fyrsta lagi af því, að sumstaðar hefir línusvæðið eigi verið rannsakað, og í öðru lagi er það venja, að landssímastjóri ráði því, hvar stöðvarnar verða, í samráði við hlutaðeigandi hreppsnefndir.

Þá er það að athuga, að í brtt. við frv. eru nokkrar línur taldar, sem þegar eru lagðar. Þær telur landssímastjóri ekki þörf á að taka upp í símalögin. Þetta á við um línuna frá Hnausum um Hnjúk og Eyjólfsstaði að Ási í Vatnsdal, línuna frá Þórshöfn til Skála, línu frá Sandnesi að Drangsnesi, línu frá Minniborg að Laugarvatni í Laugardal. Allar þessar línur eru þegar lagðar, og getur n. fallist á ástæður landssímastjóra fyrir því að taka þær ekki upp í frv.

Í staðinn fyrir línu frá Ljósavatni fram Bárðardal telur landssímastjóri rjettara að komi lína fram Bárðardal. Telur hann líkindi til, að bygt verði nýbýli nálægt Skjálfandafljótsbrú, og skiftistöðin þá best sett þar.

Breytingarnar á Hálsasveitar- og Hvítársíðulínunum telur landssímastjóri vel mega verða. En þar bendir hann á, að aðstaða í Hvítársíðu sje mjög hentug fyrir einkasíma samkv. heimildarlögum þeim, er nú liggja fyrir þinginu.

Það yrði til mikils gagns fyrir Mýrarnar að fá línu frá Langárfossi að Laxárholti. En það telur landssímastjóri, að þá þurfi að bæta við nýjum þráðum á gömlu stauraröðina frá Langárfossi að Borgarnesi, svo þær stöðvar kæmust í beint samband við Borgarnes. Gengur oft erfiðlega með afgreiðslu á sjálfri landssímalínunni, og mundi þetta verða margfalt haganlegra fyrir notendur þessarar línu, en kosta lítið eitt meira.

Skagalínuna er landssímastjóri sammála um, að leggja eigi þá leið, sem farið er fram á í brtt., en telur ekki þörf á að ákveða stöðvar á þeirri leið. Verði það yfirleitt hagkvæmast, að landssímastjóri ákveði jafnan stöðvarnar í samráði við hlutaðeigandi hjeruð.

Þá telur landssímastjóri, að línan frá Víðimýri um Rjettarholt ætti ekki að fara lengra en að Hofdölum fyrst um sinn. Þá er hann í vafa um það, hvort rjett sje að tengja þessa línu saman við aðallínuna á Vatnsleysu. Er þar um stuttan spöl að ræða, er lítið kostar og landssíminn getur tengt saman hvenær sem honum sýnist, þó ekki standi í símalögum.

Línuna frá Víðimýri að Goðdölum telur hann nóg að ákveða, að liggja skuli um Reyki og Lýtingsstaði, en óþarfa að tilnefna alla þá staði, er brtt. nefnir.

Þá telur hann, að línan að Skjöldólfsstöðum í Jökuldal ætti að koma frá skiftistöð landssímans á Egilsstöðum, á gömlu stauraröðinni þaðan til Jökulsár á Brú og upp Jökuldalinn, vestanverðu árinnar, um Hofteig til Skjöldólfsstaða. Á þá línu ætti að setja stöðina á Fossvöllum, svo sú stöð þurfi ekki að vera á aðallínunni. Þó kostnaður við þessa breyt. yrði 3000–4000 kr., þá yrði það samt margfalt hagkvæmara fyrir viðkomandi hjerað og landssímann, að Fossvellir yrðu settir á þessa línu og út af landssímalínunni.

Þá telur hann, að línan að Hveravöllum ætti að vera áframhald af Grenjaðarstaðalínunni, en ekki ganga út frá Laxamýri, eins og brtt. fer fram á. Með þessu móti styttist vegalengdin um ca. 3 km., og verður þó fult eins heppilegt fyrir Hveravelli.

Í staðinn fyrir „Lína frá Ytri-Tungu á Tjörnesi“ er lagt til, að komi: Syðri-Tungu, — því þar endar símalínan nú.

Um Hvalfjarðarlínuna telur landssímastjóri það sjálfsagt, að línan frá Saurbæ gangi út frá landssímastöðinni í Kalastaðakoti, þaðan á gömlu stauraröðinni að Saurbæ og ný stauraröð þaðan að Þyrli, þannig að þessar stöðvar hefðu beint samband við Kalastaðakot, án þess að vera inni á aðallínunni.

Þá telur hann óþarft að koma inn í símalögin línu frá Ísafirði til Arnardals. Bændurnir í Arnardal hafa verið símalausir, og hefir þó símalínan legið þar um túnið. En þegar hin nýja lína verður lögð frá Ísafirði til Ögurs, þá er sjálfsagt að setja þar inn síma, og verður stöðin þá fyrir utan landssímalínuna. En að svo stöddu er ekki hægt að setja þar upp stöð, vegna erfiðleika á afgreiðslunni á þessari línu. Þó jeg hafi borið fram brtt. um þessa stöð, get jeg að þessu athuguðu fallist á till. landssímastjóra.

Að öðru leyti þarf jeg ekki að skýra till. landssímastjóra. N. hefir fallist á till. hans. Eins og sjá má, þá eru þær ekki til þess að draga úr því, að lagðar verði línur þær, er brtt. fara fram á, heldur er ýmsu vikið við til hægðarauka fyrir hjeruðin og til þess að afgreiðslan verði greiðari. Þó frv. verð samþ., þá er ekki von á, að verulegur hluti af þessum nýju línum verði lagður á næstu árum. Til þess liggur of mikið fyrir af þegar ákveðnum og að áliti landssímastjóra nauðsynlegri línum en þær, er hjer um ræðir.

Jeg veit til þess, að von er á tveim brtt. við frv. N. hefir vitanlega ekki haft tök á að athuga þær, en það mun hún gera fyrir 3. umr. Tel jeg rjettast að samþ. frvgr. óbreytta eins og n. leggur til að hún verði, og mun n. þá athuga og bera sig saman við landssímastjóra um aðrar brtt., er fram kunna að koma, milli 2. og 3. umr.