18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2562 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það hafa komið fram nokkrar brtt. á milli 2. og 3. umr., og vil jeg víkja nokkuð að þeim.

Um fyrri brtt. á þskj. 346 verð jeg að segja það fyrir n. hönd, að hún hefir ekki haft tækifæri til að athuga hana, en um hina síðari er það að segja, að landssímastjóri telur eigi heppilegt að ákveða stöðvar á línum, sem eru ólagðar, nema áður hafi farið fram rannsókn á, hvar heppilegast sje að hafa þær, og sjeu þær svo ákveðnar í samráði við hreppsnefndirnar.

Þá hefi jeg komið fram með brtt. um að nema úr símalögunum línu af Snæfjallaströnd að Ármúla í Grunnavík. Símalagning á þessum slóðum hefir þegar verið öðruvísi ákveðin, enda var sú lína, sem jeg legg hjer til, að feld verði niður, sett í símalögin af athugaleysi. Menn hafa að vísu viljað fá þessa línu, en hún er alt of dýr, þegar þess er gætt, að lína frá Arngerðareyri til Melgraseyrar gerir sama gagn, en kostar eigi nema 8 þús. kr., þar sem línan af Snæfjallaströnd yfir á Langadalsströnd hefði kostað um 40 þús. Því hefi jeg flutt brtt. um að nema þessa línu úr lögum nr. 52, 28. nóv. 1919. Landssímastjóri er brtt. samþykkur.

Þá hefir hv. þm. V.-Húnv. borið fram eina brtt. N. hefir ekki borið sig saman um hana, en landssímastjóri leggur á móti því, að óslitin símalína sje á Vatnsnesinu. N. hefir óbundnar hendur um brtt. þessa. Þetta er ekki mikið fjárhagsatriði, en jeg hygg, að það yrði til að seinka fyrir símalínu á Vatnsnesi vestanverðu, ef þetta yrði samþ. Landssímastjóri leggur áherslu á það, að línan verði slitin sundur á einum stað.