18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi á þskj. 346 borið fram brtt. um það, að símalína frá Skógum að Skinnastöðum skuli liggja um Núp. Svo háttar til, að bærinn Skógar liggur í einskonar landeyjum. Kvíslar Jökulsár falla á tvo vegu, oft illar yfirferðar; stundum ófærar. Ef línan verður lögð beint frá Skógum að Skinnastöðum, eru engir bæir á þeirri leið, en yfir jökulvatnið Sandá að fara, en verði hún lögð um Núp, þá liggur hún almannaveg með bæjum, eins og t. d. ef símalína væri lögð eftir Fljótshlíð. Nú hefir ekki verið beðið um fleiri stöðvar en þessa einu á þeirri leið, og er alment viðurkent, að langheppilegast sje, að línan verði lögð um Núp. Hlýtur það að stafa af vanþekkingu, ef álitið er, að um annan heppilegri stað sje að velja. Jeg hygg, að menn ætli ekki, að jeg segi ósatt frá um landslag á þessum slóðum, enda hefi jeg talað við Hlíðdal símaverkfræðing og landssímastjóra um þetta mál, og er skoðun þeirra sú, er jeg hefi hjer haldið fram um símastöð að Núpi. Vona jeg því, að hv. deild fallist á þessa brtt. Verði þetta ekki að lögum, má búast við, að nokkur krytur kunni að verða um það, hvort hreppurinn skuli leggja fram nokkur hundruð króna í þessu skyni eða ekki. Mjer hefir virst, að hv. d. skæri slík framlög ekki svo mjög við neglur sjer, þegar um langlínur er að ræða, að ástæða sje að ætla, að hún bregðist illa við þessu máli. Þar sem hjer eru einnig fastákveðnar endastöðvar samkv. gildandi lögum, finst mjer, að ekki ætti að þurfa að verða ágreiningur um þetta, og gegnir nokkuð öðru máli þar, sem endastöðvar eru ekki ákveðnar, eins og í Bárðardal og Fnjóskadal; þar er hvorug endastöðin ákveðin. Býst jeg því við, að þessi brtt. fái góðar undirtektir.