18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Hannes Jónsson:

Eins og hv. frsm. samgmn. tók fram, er brtt. mín þess efnis, að bætt verði línuspotta á milli tveggja símalína, sem ákveðnar eru í frv. Jeg verð að játa, að landssímastjóri hefir lagt á móti þessari brtt., en mjer hafa ekki fundist ástæður hans svo veigamiklar, að rjett væri að fella brtt. þeirra vegna. Aðalmótbára hans var á því bygð, að hægara væri um línueftirlit, ef símalínan væri skilin í sundur á Vatnsnesi. Það er auðvitað rjett, að því styttri sem símalínur eru, því hægara er að hafa eftirlit með þeim. En vegna þess, hve flestar þær línur, sem lagðar hafa verið, hafa verið langar og stöðvar margar, virðist mjer ekki nein ástæða til að gera undantekningu með Vatnsnes í þessu efni. Sá viðauki, sem jeg fer fram á, er eitthvað um 20 km. spotti.

Út af því, sem sagt hefir verið um þær till. landssímastjóra, að ákveða ekki með lögum, hvar millistöðvar skuli vera þegar í stað, þá vil jeg gefa þá skýringu, að þetta ber alls ekki að skoða svo, að stöðvarnar eigi ekki að koma upp. N. hefir gengið inn á þetta, vegna þess að landssímastjóri hefir lofað, að stöðvarnar skuli koma þar upp, sem honum og hjeruðunum komi saman um. Því gat jeg látið mjer lynda, þótt felt væri niður að ákveða tvær stöðvar á Vatnsnesi, því að jeg býst ekki við, að árangurinn af rannsókn á því, hvar þessar stöðvar skuli verða, verði annar en sá, að sömu stöðvar verði valdar og jeg hefi lagt til. Annars get jeg ekki sjeð neitt hættulegt við það að velja stöðvar, ef þær eru aðeins ekki of margar, því að ávalt er hægt að flytja þær til, því að landssímastjóri hefir látið í ljós, að hjeruðin geti ráðið, hvar stöðvarnar eru, ef þær eru ekki of margar. Hitt er rjett, að meira þras leiðir af því, að stöðvarnar sjeu ákveðnar, og því hefir n. gengið inn á að láta óbundið, hvar stöðvarnar eru. En jeg vil taka það fram, að n. ætlast ekki til, að stöðvar á þessum línum verði færri en svo, að almenningur hafi gagn af þeim. Jeg er sammála hv. frsm. nema að því leyti, að hann hefir lagst á móti minni till.