10.05.1929
Efri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

77. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þetta frv. hefir fengið ærið langan hala frá því það kom fyrst fram í Nd. Jeg verð að segja það, að jeg skil ekki í, að nokkur sje svo fróður hjer á þingi, að hann viti eiginlega, hvað hjer er á ferðum. Það er ef til vill hægt að fá nokkurnveginn vitneskju um, hve langar þessar línur eru samtals, sem hjer er farið fram á, að lagðar verði. En hitt hygg jeg miklu erfiðara, að fá lagðan rökstuddan dóm á, að hjer sjeu farnar hinar heppilegustu leiðir og á allan hátt svo til hagað, að ekki mætti betur fara. Nú hafa ekki fyrir löngu verið afgr. lög um einkasíma í sveitum. Mjer hefði því þótt hyggilegra, að áður en ráðist er í þær framkvæmdir, sem frv. þetta ræðir um, þá sje lagt fast „plan“. um það, að hve miklu leyti ríkið legði síma um sveitirnar og að hve miklu leyti einkasímafjelögin gripu þar inn í. Mjer virðist þetta frv. taka helst til lítið tillit til þess, hvort símalínur eru lagðar á heppilegum stöðum gagnvart einkasímalagningum. Enda er þetta mjög eðlilegt, því að frv. er svo til komið, að einn og einn þm. hefir sett inn í frv. línu eða línur fyrir sitt kjördæmi, eftir því sem hann hefir haft aðstöðu og getu til. Af þessu leiðir, að ekkert samræmi eða heildarskipulag er um að ræða við símalagningar þessar. Jeg teldi því mun betur farið, ef landssímastjórninni væri fyrst falið að útbúa heildarkerfi allra símalagninga ríkisins, með sjerstöku tilliti til þeirra lagninga, sem einkasímafjelögin myndu síðar meir hafa með höndum. Að öðrum kosti er hreppapólitíkinni gefið ískyggilega undir fótinn, og hætt er við, að sami leikur verði leikinn og þegar um breytingar á vegalögunum er að ræða. Að þessu athuguðu hefði jeg talið það stórum hyggilegra af þessari hv. deild, að hún vísaði frv. til frekari aðgerða landssímastjórnarinnar, sem síðan legði till. um þetta mál fyrir næsta þing, sem samdar væru með hliðsjón af því, sem jeg hefi áður getið um. Jeg get ekki skilið að frv. liggi svo á að fá afgreiðslu á þessu þingi, að það megi ekki bíða til næsta þings. Jeg held, að máli þessu sje það fyrir bestu, að það fái betri athugun, enda verða þessar línur hvort eð er fæstar lagðar á þessu ári eða næstu árum. Það er því nægur tími til frekari undirbúnings, og því ástæðulaust að flaustra málinu af þegar í stað.