22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

94. mál, hæstiréttur

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Það er ekki stórt frv., sem hjer er um að ræða. Eins og hv. dm. mun kunnugt, var sú breyt. gerð með hæstarjettarlögunum nr. 22 frá 6. okt. 1919, að yfirrjetturinn var feldur niður. Voru þá allmargir menn, sem rjett höfðu til þess að flytja mál fyrir yfirrjettinum, og var rjettur þeirra því yfirfærður til hæstarjettar, þó með því skilyrði, að þeir yrðu að ganga undir prófraun innan þriggja ára. Þeir, sem höfðu II. einkunn við próf í lögum, mistu rjettinn, ef þeir höfðu ekki leyst prófraunina innan þessa tíma. Þetta ákvæði hefir altaf verið bæði ranglátt og tilgangslaust. Það tók rjett af mönnum, er þeir áður höfðu, ef þeir einhverra orsaka vegna gátu ekki gengið undir hina tilskildu prófraun. Af þeim mönnum, sem töpuðu rjettindum á þennan hátt, munu nú ekki vera eftir nema örfáir menn. Og fyrir tilmæli tveggja þeirra flyt jeg þetta frv. Þeir hafa nú um langt skeið starfað í stjórnarráði Íslands og má því gera ráð fyrir, að þeir hafi ekki svo lítið aukið lögfræðiþekkingu sína frá því er þeir fluttu mál fyrir yfirrjettinum. Að endingu skal jeg taka það fram, að jeg er einn þessara manna, sem mistu rjettindi á þennan hátt. En þrátt fyrir það er mjer mín vegna alveg sama um þetta ákvæði, því jeg hefi aldrei lagt mikla stund á málaflutning. Hefi jeg því ekkert mist fyrir þessar sakir, en eigi að síður er þetta ákvæði hæstarjettarlaganna ranglátt og þarf að falla niður, því þarna eru menn sviftir rjetti, sem þeir áður höfðu, enda er það, eins og menn vita, oft undir tilviljun einni komið, hvort menn fá fyrstu eða aðra einkunn við próf.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar að sinni og óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn. að lokinni þessari umr.