17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

94. mál, hæstiréttur

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Eins og nál. ber með sjer, hefir allshn. orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Telur hún rjett, að þeir fáu málaflutningsmenn, er haft höfðu málfærsluleyfi við yfirrjett, en mistu það við stofnun hæstarjettar, fái leyfi til að flytja mál þar að undangenginni prófraun. Skal jeg þó geta þess, að frv. þetta hefir verið borið undir hæstarjett og taldi hann ekki þörf á því, en einn af dómurunum í hæstarjetti hefir þó látið í ljós, að ekki bæri að skoða þetta sem mótmæli gegn frv. Einn hv. nefndarmanna gerði ráð fyrir að koma fram með brtt. við frv. Annar lýsti sig að vísu eigi mótfallinn frv., en skrifaði þó ekki undir nál.

Vona jeg, að hv. deild vísi þessu máli til 3. umr. og leyfi því sem greiðast fram að ganga.