18.04.1929
Efri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

76. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Allshn. hefir athugað frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, ásamt skjölum þeim, sem umsóknir þessara 3 manna eru bygðar á, og hefir hún ekkert við þau að athuga. Þeir fullnægja alveg öllum skilyrðum, og leggur n. því til, að þeim verði veittur ísl. ríkisborgararjettur.

Það hefir einnig komið til n. samskonar umsókn frá Jóhannesi Stefánssyni. Hann er fæddur og uppalinn hjer á Íslandi, en fór svo til Vesturheims og fjekk þar breskan þegnrjett. Nú er hann kominn hingað til landsins og ætlar að dvelja hjer, og óskar því eftir að fá íslenskan ríkisborgararjett aftur. í umsóknarskjalinu kallar hann sig Birkiland, en n. sá ekki ástæðu til þess að taka það nafn upp í viðaukatill. sína, því að hún vissi ekki, hvaða rjett hann hefir til þess að bera það, og hefir því tekið það nafn, sem stóð á skírnarvottorði hans. N. leyfir sjer að mæla með þessum manni og leggur til, að honum verði einnig veittur íslenskur ríkisborgararjettur.