04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi ekki margt að segja út af ræðu hv. frsm. Hann sagði, út af aths. mínum við nafnið, að það gæti verið rjett að taka það til nýrrar athugunar, og skilst mjer því, að í orðunum liggi, að brtt. verði tekin aftur til 3. umr. Enda virðist mjer, að ef þessi brtt. nefndarinnar verður samþ., geti það leitt til þess, að á Norðurlöndum blandi menn auðveldlega saman Landmandsbanken í Danmörku og þessum. Jeg álít, að það verðum við að varast, og vona, að nefndin falli frá till. sinni og taki hana aftur.

Aftur á móti vildi hv. frsm. ekki taka aftur af n. hálfu till. um lán til smábátaútvegsins. Hv. frsm. vjek að brtt. við 13. gr., sem miðar að því, að stofnfjeð verði lækkað um 3/4 milj. og taldi það hættulaust. Það má vel vera, að það komi ekki að sök á næstu árum, en getur það ekki orðið skammgóður vermir? Það getur svo farið, að í náinni framtíð þurfi veðdeildin að gefa út meiri skuldabrjef, — og hver segir, að Alþ. muni þá veita henni þann styrk og aðstoð, sem með þarf, og er því ekki betra að búa vel um þessa stofnun strax í byrjun? Það er nú uppi meðal ýmsra manna hjer á landi að gerbreyta kjördæmaskipuninni og draga pólitíska valdið úr höndum bænda, og ef það kann fram að ganga, vil jeg ekki eiga það á hættu að bíða með nauðsynlegar ráðstafanir til tryggingar því, að vel verði hlúð að þessu þjóðþrifafyrirtæki. (ÓTh: Er nokkur hætta á því, ef uppteknum leik verður haldið áfram? Í fyrra drógu þingmenn pólitíska valdið úr höndum bænda í einu kjördæmi þessa lands, en fengu sócialistum það í hendur). Hver hætta getur það verið fyrir bændur, þótt reynt hafi verið að bæta upp þann órjett, sem bændur þessa hjeraðs höfðu verið beittir, svo sem gert var í því máli, sem hv. þm. gat um? En annars er landbúnaðarbankinn hjer til umræðu, en, jeg býst við því, að ef kjördæmaskipuninni verður breytt, þá verði ekki eins hægt um vik með að ná í fjeð. (MG: Ekki er nú lengi verið að breyta lögunum; í það minsta reyndist það svo í fyrra með Landsbankalögin). Já, það er satt, að þeim lögum var breytt, en það var gert til tryggingar bankanum.

Þá ætla jeg að snúa mjer að hv. þm. Borgf. Hann sagði, að hann hefði fært óhrekjandi rök fyrir því, að þörf smábátaútvegsins væri mjög brýn, og að jeg gæti ekki hrakið þau rök. Mjer er það mjög ljóst, að smábátaútvegurinn þarfnást styrks ríkisins, en mjer þykir ekki rjett að láta hann fá þann styrk frá þessum banka. En jeg bendi einnig á það, að í kaupstöðum þessa lands eru víðast hvar lánsstofnanir, sem menn gætu fengið fje hjá til þessa atvinnurekstrar. Þetta eru staðreyndir, sem ekki er hægt að hrekja, og hv. þm. Borgf. hefir ekki komið fram með nein rök fyrir því, hvers vegna smábátaútvegurinn ætti frekar að njóta styrks frá landbúnaðarbankanum heldur en annar atvinnurekstur, sem ekki er landbúnaður. Hv. þm. Borgf. getur heldur ekki mælt því bót, að samkvæmt hans ætlun á smábátaútvegurinn í Reykjavík, Hafnarfirði og Ísafirði ekki að njóta þessa styrks, en aftur á móti nýtur slíkur útvegur frá Akranesi þessara hlunninda. Í þessu er ekkert rjettlæti, og jeg er þeirrar skoðunar, að á þessu máli hafi jeg betri skilning en hv. þm. Borgf., því að mitt álit er það, að þessi útvegur eigi jafnan rjett á sjer, hvort sem hann er rekinn frá Hafnarfirði eða Akranesi. Háttv. þm. Borgf. er yfirleitt stundum nokkuð einsýnn á mál, og í þessu máli er hann það um of. Hann sagði, að þótt 1/2 milj. væri látin renna til útvegsins, svo sem tillögur meiri hl. sjútvn. benda til, þá væri það engin úrlausn. (PO: Það sagði jeg ekki). Háttv. þm. Borgf. sagði þetta og tvítók það upp til frekari áherslu, en þegar á að opna landbúnaðarbankann, svo sem till. gerir ráð fyrir, þá er það úrlausn. Hvað kallar hv. þm. úrlausn? (PO: Svona hártoganir eru ósæmandi hæstv. forsrh.). Það fer fjarri því, að jeg hártogi orð hv. þm., en jeg tek þau upp eins og hann sagði þau.

Annars get jeg gjarnan lýst yfir því, að jeg er reiðubúinn að taka höndum saman við hv. þm. Borgf. og reyna til að hjálpa og styrkja þessa atvinnugrein eftir heppilegri leið. Hitt er rangt, að opna landbúnaðarbankann fyrir þessa grein útgerðarinnar, enda má ætla, að hv. þm. Borgf. yrði ekki ánægður fyr en 5-10 milj. króna væru veittar, sbr. orð hans um, að 1/2 milj. kr. sje engin úrlausn. Eins og jeg sagði áðan, verður að finna leið til að rjetta smáútgerðinni hjálparhönd, og að því mun jeg stuðla eftir mætti. Jeg vil ekki hleypa neinu þjarki í þetta mál, en vil skjóta því til hv. þm. Borgf., hvort ekki myndi það leið, að við reyndum að ná samkomulagi um þetta. Þessi banki, sem hjer um ræðir, er eingöngu ætlaður fyrir landbúnaðinn, og því er það rangt að vera að troða þessu þar inn. En af því að jeg veit, að þessi till., sem hv. þm. Borgf. stendur á bak við, er fram komin af góðum hug, er jeg reiðubúinn til samstarfs við hann í þessu máli.