25.03.1929
Efri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., eins og jeg hafði búist við, að hann viðurkennir, að undirbúningur þessa frv. sje ónógur. Um kostnaðinn getur hann svo gott sem ekkert sagt, og það er af því, að hæstv. stjórn hefir alveg vanrækt að leita ráða sjerfróðra manna í þessu efni. Það er ekki hægt að ámæla henni, þó að hún hafi ekki sjálf næga þekkingu til að annast undirbúning slíks máls, svo að í lagi sje, en það er alveg óafsakanlegt af henni að leita ekki til fagfræðinga. Hún hefði líka átt að leita samkomulags við þær ríkisstofnanir, sem eiga að aðstoða rannsóknarstofuna, áður en frv. var flutt hjer á Alþingi. Yfirleitt virðist mjer allmjög að frv. hrapað. Það er að vísu rjett, að nauðsyn stofnunar sem þessarar er mjög brýn. En alt um það má undirbúningurinn ekki vera svo ljelegur, að vonlaust sje um árangur þess vegna. En svo held jeg, að sje í þessu máli enn sem komið er.

Jeg get ekki bent á aðra leið heppilegri en að fá útlendan sjerfræðing til að rannsaka búfjársjúkdómana hjer á landi. Leiðbeiningar um val þess manns gæti stjórnin sjálfsagt fengið hjá atvinnumálaráðuneytunum á Norðurlöndum.

Hæstv. forsrh. gat þess, að hann hefði átt tal við Skúla lækni Guðjónsson um þessar væntanlegu rannsóknir, og mundi hann hafa góða þekkingu á þeim efnum. Það er að vísu rjett, að Skúli Guðjónsson hefir lagt stund á eina tegund þessara rannsókna, nefnil. fjörvirannsóknir. En hann er, ekki efnafræðingur og ekki heldur dýralæknir. Jeg þekki þennan mann persónulega, því að hann hefir verið aðstoðarlæknir hjá mjer. Mjer er kunnugt um, að hann er sjerlega duglegur maður og áreiðanlega vel að sjer í sínu fagi. En maður, sem á að hafa á hendi rannsóknir á dýrasjúkdómum, þarf að hafa þekkingu á dýralækningum, en hana hefir Skúli Guðjónsson ekki. Jeg er hræddur um, að þó að þetta frv. yrði samþ. nú, þá yrði verkefnið, sem á að leysa af höndum, eftir sem áður að ýmsu leyti óleyst.

Mig undrar það ekki, þó að bændur vilji gjarnan fá hjálp gegn alidýrasjúkdómunum, og helst sem fyrst. En slíkar rannsóknir verða að vera í höndum fagfróðra manna.

Hæstv. forsrh. gefur í skyn, að launin sjeu ákveðin í 6. gr. frv. Það er rjett, að sú grein talar um laun starfsmanna. En ekki verður af henni sjeð, hve margir starfsmennirnir eiga að vera. Þetta er eins og annað í frv., lítt hugsað. En það er áríðandi að gera sjer glögga grein fyrir þessum framkvæmdum eins og þær eiga að verða, alveg eins og menn hafa fyrir framan sig teikningu af húsi, áður en það er bygt.

Jeg held, að heppilegt mundi vera að veita einhverja upphæð í fjárlögum þessu máli til undirbúnings. Þessu fje ætti svo stjórnin að verja til þess að leita aðstoðar erlendis. Og jeg held áreiðanlega, að erlendur sjerfræðingur myndi ráða betur fram úr þeim málum, er viðkoma dýralækningum, en mannalæknar. En þó að Skúli Guðjónsson geti ekki rannsakað alidýrasjúkdóma til hlítar, þá eru samt nóg verkefni fyrir hann. Hjer á landi þyrfti nauðsynlega að rannsaka innfluttar fóðurvörur og matvörur. Til þess væri Skúli Guðjónsson vel fallinn, og þar kæmi sjerþekking hans honum að góðum notum. Hjer er látið fara fram mat á öllum eða flestum útfluttum vörum, svo sem kjöti og fiski. En innflutta varan er aldrei metin. Og væri þó eigi síður þörf á því. Mjölið, sem hingað flytst, er oft alveg óboðleg vara til manneldis. Stundum er það margra ára gamalt. Hveiti er stundum gert hvítt með því að bleikja það með saltpjetursýrlingi og fleiri efnum, sem eitruð eru og skemma það. Malað korn heldur ekki fullu næringargildi lengur en 4-6 vikur. Gamalt mjöl er á sinn hátt alveg eins og hrakið hey, svift næringarefnum.

Að endingu vænti jeg þess, að hv. deild geri sjer það ljóst, að með því að samþykkja dagskrá þá, er jeg hefi borið fram, er málinu best borgið og um leið opnuð leið til þess, að sjerfróðir menn geti fengið það til meðferðar.