14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Ólafur Thors):

Frv. þetta er flutt eftir tilmælum bæjarstj. í Hafnarfirði og fer fram á, að ríkissjóður leggi fram 333 þús. kr. til hafnar gerðar þar, og ennfremur, að hann ábyrgist fyrir Hafnarfjarðarkaupstað tvöfalda þá upphæð, eða 667 þús. kr.

Ástæðan fyrir því, að bæjarstj. fer fram á þetta, er sú, að höfnin í Hafnarfirði, sem annars er að mörgu leyti góð, er mjög ber fyrir útsunnan- og vestanstormum. Á meðan útgerð var lítil í Hafnarfirði, sakaði þetta ekki, en nú síðan hún fór að færast í aukana, má telja óviðunandi að gera þar ekki sæmilegar hafnarbætur.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að byggja ca. 700 m. langan garð yfir þvera höfnina, frá suðurlandinu, þar sem heitir Skiphóll, og í sambandi við hann ýms önnur mannvirki. Árið 1923 var gerð bráðabirgðaáætlun um, hvað garður þessi myndi kosta, af verkfræðingi, sem var á vegum Monbergs, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að hann myndi kosta ca. 11/4 milj. kr. En þar sem vinnulaun og margt annað, sem að slíkri byggingu lýtur, hefir fallið mjög í verði síðan áætlun þessi var gerð, er ekki gert ráð fyrir nú, að kostnaðurinn við byggingu garðsins fari fram úr 1 milj. kr.

Um mál þetta hefir verið leitað álits vitamálastjóra, og telur hann sig því fylgjandi, að verk þetta verði framkvæmt. Þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir þessar hafnarbætur er augljós öllum, sem til þekkja, en til upplýsingar hinum, sem ókunnugir eru þar, vil jeg geta þess, að nú eru gerðir þaðan út 12 togarar, auk margra línubáta. Er þetta hin mesta útgerð, sem nokkurn tíma hefir verið þaðan.

Þar sem það er nú fyrirsjáanlegt, að Hafnarfjörður á mikla framtíð fyrir höndum sem útgerðarstöð, leiðir af sjálfu sjer, að girða verður fyrir það, að skip liggi þar í fleiri daga án þess að verða afgreidd; en það verður ekki gert með öðru móti en því, að slíkur garður, sem hjer er gert ráð fyrir, verði bygður, því að allar aðrar umbætur á höfninni, svo sem bryggjur o. þ. h., eru gagnslitlar ella.

Að endingu vil jeg geta þess, að tekjur ríkissjóðs af Hafnfirðingum og í sambandi við útgerðina í Hafnarfirði munu vera nálægt 1/2 milj. kr. á ári. Vænti jeg því, að allir hv. þm. taki vel í þessa málaleitun, og það því fremur, þegar framtíð kaupstaðarins veltur á þessu framfaramáli.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að gera lengri grein fyrir frv. þessu, og legg til, að því verði vísað til sjútvn. að umr. lokinni.