25.03.1929
Efri deild: 31. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hjelt, að jeg hefði getið um það við fyrstu umr. frv., hvernig þetta mál hefir breytst í höndum mínum, síðan jeg tók það fyrst til meðferðar, en af ræðu hv. þm. Snæf. sje jeg, að svo muni eigi hafa verið. En fyrir mjer vakti í upphafi, að starf stofnunarinnar yrði a. m. k. fyrst um sinn takmarkað við það verkefni, sem hv. þm. talaði um. Í mínum augum er rannsókn búfjársjúkdómanna langstærsta atriðið í þessu máli. Og ef hv. deild óskar þess, er jeg fús til að fallast á, að verksviðið verði þrengt í þá átt.

Það var eftir tillögum samverkamanna minna, starfsmannanna hjá Búnaðarfjelagi Íslands, að jeg lagði frv. fram í því formi, sem það hefir nú. Þeir töldu rjettara að láta rannsóknirnar ná til atvinnuveganna yfirleitt, úr því að til þeirra væri stofnað á annað borð. Og þeir töldu, að frv. mundi fremur eiga framgangs von með því fyrirkomulagi. En komi það í ljós, að það sje líklegra til fylgis, ef verksviðið er þrengt, skal ekki standa á mjer að samþykkja það.

Hv. þm. (HSteins) átaldi það, að jeg skyldi hafa snúið mjer til Skúla Guðjónssonar í þessu máli. En það gerði jeg einmitt fyrir áskoranir þeirra manna hjer á landi, sem helst bera skyn á þessi mál. Jeg skal taka það fram, að rannsóknir á fjöruskjögri hafa einmitt verið gerðar í samráði við þennan mann. Þannig hefir hann þegar látið til sín taka í þessum efnum, og það sem sjálfboðaliði. Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um nauðsyn dýralæknisþekkingar, vil jeg benda á, að frv. gerir beinlínis ráð fyrir því, að dýralæknarnir verði samverkamenn stofnunarinnar. Upphaflega ætlaðist jeg til, að dýralæknirinn í Reykjavík yrði skyldur til að láta í tje aðstoð í þessu efni.

Þeir hv. þdm., sem talað hafa gegn þessu frv., vilja gefa stjórninni bendingu um að ráðgast við nefnd manna um framkvæmd þessa máls. En enga ástæðu sje jeg til að tefja frv. þess vegna, því að stjórnin hefir þegar leitað ráða fróðustu manna hjer á landi, og mun einnig gera svo framvegis, þegar til framkvæmda kemur. En það skal vera reiðilaust af minni hálfu, þó að starfssviðið sje eitthvað þrengt, enda kemur það heima við fyrirætlanir sjálfs mín, eins og jeg gat um áðan.