27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Björn Kristjánsson:

Þetta frv. er komið frá Nd. og var flutt þar samkv. tilmælum bæjarstj. í Hafnarfirði.

Eins og frv. þetta ber með sjer, þykir Hafnfirðingum ekki lengur viðunandi hin ónóga höfn, sem þar er. Það hefir að vísu verið hafskipabryggja þar um alllangt skeið, frá fyrstu árum mínum á þingi og alt fram á þennan dag. Við þessa einu bryggju hefir bærinn orðið að notast en svo er mál með vexti, að ef snarpur vestanvindur kemur, þá er ekki einungis ófært að afgr. nokkurt skip, heldur eru öll skip og bátar, sem á höfninni liggja, í beinum háska, enda hefir ekki ósjaldan hlotist stjórtjón af. Nú hefir útvegurinn aukist afarmikið í Hafnarfirði á síðustu árum, svo að nú ganga þaðan 12 togarar, 10 línubátar og fjöldi vjelbáta og smábáta. Allur þessi skipastóll rúmast auðvitað ekki við þessa einu bryggju, enda verða skipin oft að bíða svo lengi eftir afgreiðslu, að stór bagi er að. Hinsvegar er ekki hægt að stækka bryggjuna eða byggja aðra nýja, nema því aðeins, að fyrst sje hlaðinn garður fyrir höfnina til þess að skýla henni fyrir brotsjóum úthafsins í vestanvindum. Garður þessi á að liggja frá suðurlandinu og vera kringum 700 m. að lengd. Áætlað er að hafnarmannvirki þetta kosti um 1 milj. kr., og er það miljónarfjórðung lægra en áður var áætlað, vegna þess að verkalaun hafa nú lækkað nokkuð. Mál þetta hefir verið borið undir vitamálastjóra, og hefir hann mælt eindregið með því og talið þennan garð hið eina úrræði til þess að gera höfnina örugga.

Það er enginn efi á því, að Hafnarfjörður er hinn mesti framtíðarstaður, enda er hann þegar einn af blómlegustu kaupstöðum landsins. Tekjur ríkissjóðs af Hafnarfirði eru um eða yfir hálfa milj. kr. árlega, og sjöundi hluti af öllum útfluttum fiski úr landinu fer frá Hafnarfirði. Af þessu má sjá, hve mikill liður í ríkisbúskapnum Hafnarfjarðarkaupstaður er orðinn, og enda mun hann þess vel maklegur, að ríkissjóður leggi eitthvað af mörkum til hafnarbóta þar. En það verður að hefjast handa áður en langt um líður; ella hljótast af vaxandi vandræði og tjón. Jeg vænti þess því, að d. taki vel í þetta mál, enda hefir hún tekið vel í annað samskonar mál, sem verið hefir hjer til meðferðar.

Þetta mál var fyrir sjútvn. í Nd., og jeg vil því gera að till. minni, að því verði einnig vísað til sjútvn., og treysti því, að n. hraði málinu sem mest er má, vegna þess að nú er orðið mjög áliðið þings.