03.05.1929
Efri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

66. mál, hafnarlög fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við frv. við þessa umr. Skal jeg nú í fám orðum skýra ástæðurnar fyrir þeim.

Þetta þing hefir lofsamlega sjeð þörfina á því að veita fje til hafnarbóta hjer á landi. Jeg hygg, að ekki sjeu færri en 4 slík frv. fyrir þinginu nú. Það er í sjálfu sjer lofsverð tilraun til að bæta úr brýnum nauðsynjum þjóðarinnar, en hitt er eigi síður augljóst, að slíkar framkvæmdir hljóta að kosta ríkissjóð ærið fje, og á þá hlið málanna ber að líta jafnframt. Hvað þetta frv. snertir, þá verður að teljast næsta viðurhlutamikið að binda slíkan bagga á ríkissjóð fyrirvaralaust, enda mun þetta vera hið einasta lagafrv., sem þetta þing hefir til meðferðar og sem leggur ríkissjóði stórfjárútlát á herðar, án þess að þau sjeu tekin upp í fjárl. Jeg sje enga ástæðu til þess, enda væri slíkt alveg einsdæmi. Hinsvegar er það alkunnugt, að Hafnarfjörður hefir tiltölulega langbesta aðstöðu, til þess að koma hafnarbótum á af öllum bæjum og kauptúnum hjer á landi. Veldur því það, að bærinn á hafnarsjóð, sem nemur alt að því, sem hin áætluðu hafnarmannvirki kosta. Þetta mun hvergi eiga sjer stað annarsstaðar, og að þessu athuguðu sýnist minni ástæða til þess að veita Hafnarfjarðarkaupstað hlunnindi fram yfir aðra bæi og kauptún á landinu. Jeg vildi því leggja til, að fylstu varúðar sje gætt og ekki rasað um ráð fram í þessu máli. Þó vil jeg ekki ganga lengra í því að takmarka stuðning ríkisins til þessara mannvirkja en brtt. mínar bera með sjer. Jeg skal benda á það í þessu sambandi, að ríkið hefir þegar lagt fram allmikið fje til hafnarbóta í Vestmannaeyjum, með þeim kjörum, að Vestmannaeyjar legðu til 2/3 kostnaðar. Nú vita það allir, sem til þekkja, að þrátt fyrir það fje, sem lagt hefir verið fram í þessu skyni til Vestmannaeyja, þá eru þær nú samt litlu betur settar í þessum efnum en áður, og eins og sakir standa virðist þörfin fyrir áframhaldandi auknum hafnarbótum í Vestmannaeyjum vera ekki síður aðkallandi en í Hafnarfirði. Ennfremur ber á það að líta, að í Hafnarfirði er af náttúrunnar hendi svo góð höfn, og önnur skilyrði, að tekist hefir að safna í hafnarsjóð svo miklu fje, að það nú nemur af öllum byggingarkostnaði hafnarinnar. Því verður ekki neitað, að hjer stendur alveg sjerstaklega á, og að því athuguðu virðist lítil ástæða til þess að leggja meira fje af mörkum til Hafnarfjarðarkaupstaðar en til annara staða, þar sem líkar framkvæmdir standa fyrir dyrum.

Hinsvegar get jeg vel skilið, að þótt Hafnarfjörður eigi þennan sjóð, að þá sje hann ekki handbært fje til þess að nota. Verð jeg að telja honum hafa verið mjög sómasamlega varið, því hann hefir verið lánaður til ýmissa framkvæmda fyrir bæjarfjelagið. Þess vegna álít jeg ekki nema sjálfsagt, að ríkið ábyrgist lán fyrir Hafnarfjörð í stað þess, og geri jeg ráð fyrir, að það væri áhættulaust. En hinu get jeg tæplega búist við, að þingið taki nú upp þá venju að leggja meira fje úr ríkissjóði til nokkurra staða en annara, hlutfallslega, án þess að þörfin sje þar nokkru meiri, nema síður sje. Jeg er á þeirri skoðun, að með því að byrja á því að greiða úr ríkissjóði 1/3 hluta af byggingarkostnaði allra hafnarmannvirkja sje verið að ganga inn á mjög viðsjárverða braut. Hinsvegar má það vera öllum ljóst, að ef Hafnfirðingum er verulega ant um að koma upp hjá sjer höfn, þá er þeim í lófa lagið að gera það, þótt tillag ríkissjóðs sje ekki nema 1/4 hluti kostnaðar, því að, eins og jeg gat um áðan, þá er sjálfsagt að veita ríkisábyrgð á láni til hafnargerðarinnar. Auk þess eiga þeir þegar kostnaðarins í sjóði á vöxtum, sem að vísu eru nokkuð lægri en af láni, sem væntanlega yrði tekið í þessu skyni. Sömuleiðis hefir Hafnarfjörður stórkostlegar hafnartekjur, svo að ekki þarf að bíða mörg ár þangað til eitthvað fer að hafast upp í kostnaðinn. Að þessu leyti stendur Hafnarfjörður mun betur að vígi en aðrir bæir hjer á landi. En hinsvegar get jeg fyllilega viðurkent þörf þessa máls, en mjer þykir einungis heldur mikil og óþörf ágengni af Hafnfirðingum að fara fram á, að þeim sje skipað skör hærra en venja er til þegar líkt stendur á, vitandi það, að hinn sterkríki hafnarsjóður þeirra gæti með góðu móti staðið straum af þessum framkvæmdum án þess að þiggja einn einasta eyri úr ríkissjóði. Þó ætla jeg ekki að fara fram á, að ríkið leggi ekki hið venjulega tillag, kostnaðar, til hafnarbyggingarinnar. En þar vil jeg, að staðar sje numið.

Þá hefi jeg flutt viðaukatill. við 1. gr., um að framlag ríkissjóðs sje bundið því skilyrði, að verkinu sje stjórnað af manni, sem ríkisstj. hafi samþ. og tekið gildan. Þetta hefir ávalt verið venjan, og virðist mjer ástæðulaust að hverfa frá henni í þessu tilfelli. Það er þó ekki svo að skilja, að jeg beri nokkurt vantraust til Hafnfirðinga í þessum efnum, en mjer virðist þetta einungis sjálfsögð varasemi af hálfu hins opinbera. Og jeg veit ekki betur en að tilsvarandi ákvæði sje bæði í hafnarlögum Vestmannaeyja og í lögum um hafnargerð á Skagaströnd, og er einsætt, að sama á að gilda um Hafnarfjörð. Og jeg skal benda á það, að slíkt ákvæði er ekki að ófyrirsynju sett inn í lögin. Það hefir sýnt sig, að ekki hefir veitt af, að ríkið hefði eftirlit með slíkum framkvæmdum, t. d. í Vestmannaeyjum.

Jeg sje ekki ástæðu til að mæla lengra mál fyrir brtt. mínum. En jeg vil vænta þess, að þeir hv. þdm., sem greiða atkv. gegn brtt. mínum, en með frv., hafi það í huga næst þegar slík mál koma til þeirra úrskurðar, að þarna var aðstaðan til að koma upp höfn alveg einstæð, bæði hvað náttúruskilyrði snertir og getu kaupstaðarins. Og það er ekki nema að nokkru leyti rjett, að ríkið hafi svo miklar tekjur af höfninni, að því beri skylda til að leggja fram stórfje til hennar. Hafnarsjóðurinn hefir drýgstan skerf af tekjum hafnarinnar, og þess vegna mælir öll sanngirni með því, að hann beri kostnaðinn að mestum hluta.