17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

107. mál, lendingarbætur í Þorlákshöfn

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv. hefir verið hjá sjútvn., og hún er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Það er komið frá hv. Nd. og var ekki breytt þar. Er að því leyti dálítið öðru máli að gegna um þetta frv. en um hin ýmsu frv. af svipuðu tægi — um lendingarbætur og hafnarmannvirki — sem þingið hefir fjallað um nú undanfarin ár.

Það er farið fram á, að ríkið greiði helming kostnaðar við lendingarbætur í Þorlákshöfn. Þetta er nokkuð meira en venja er, þar sem ríkissjóður greiðir venjulega ekki nema 1/4, 1/3 eða í mesta lagi 2/5 kostnaðar. En n. lítur svo á, að hjer. standi alveg sjerstaklega á, þar sem þessar hafnarbætur eru gerðar með sjerstöku tilliti til þess, að þarna verði nokkurskonar neyðarhöfn fyrir nærliggjandi verstöðvar, svo sem Stokkseyri og Eyrarbakka. Finst n. því ástæða til þess að leggja meira fje til hjer en annarsstaðar. Leggur hún því til, að frv. verði samþ. óbreytt, enda þó framlag ríkissjóðs sje meira hjer en við aðrar lendingar- og hafnarbætur.