27.03.1929
Efri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Jón Þorláksson:

Eins og jeg tók fram við 1. umr. þessa máls, þá álít jeg, að lagafrv. það, sem hjer liggur fyrir til umræðu, sje mjög illa undirbúið, og mót von minni hefir lítið verið bætt úr göllum þess í meðferð hv. nefndar. Jeg hefi dálítið athugað þetta mál, og hefir það orðið niðurstaða mín, að til þess að fá sæmilega lögun í þessum efnum, þyrfti að setja heildarlöggjöf um þær stofnanir, sem samkvæmt frv. þessu eiga að vinna að rannsóknum í þarfir atvinnuveganna, sumpart saman og sumpart út af fyrir sig.

Efnarannsóknarstofa ríkisins hefir nú starfað síðan 1906, og það án þess að einn stafur hafi staðið um hana í löggjöfinni, að öðru leyti en því, að fje hefir verið veitt til hennar í fjárlögunum. Nú stendur þannig á fyrir stofnun þessari, að hún er í miklu húsnæðishraki. Fyrir 3-4 árum varð hún að hröklast úr því húsnæði, sem hún hafði haft frá upphafi, og var þá gerð bráðabirgðaskipun um húsnæði fyrir hana um næstu fimm ár. Er því nú ekki eftir nema eitthvað á annað ár af þeim tíma. Störf þessarar stofnunar hafa altaf farið vaxandi, og er nú svo komið, að þetta bráðabirgðahúsnæði er orðið alveg ófullnægjandi fyrir hana. Þannig hefir forstöðumaður hennar orðið að hröklast með nokkurn hluta af starfi sínu, sem sje undirbúningskenslu fyrir læknanemendur háskólans, í annað húsnæði, sem er þó ennþá meira bráðabirgðahúsnæði en hitt, því að það er í útihúsi bak við mentaskólann.

Þá hefir það og ennfremur aukið á þessa húsnæðiserfiðleika, að nýlega hefir látist maður, sem hafði með höndum ýmiskonar gerlarannsóknir, sem hann framkvæmdi ekki í efnarannsóknarstofu ríkisins, heldur annarsstaðar í bænum, og hafði til þess sjerstök áhöld. Við lát þessa manns, Gísla Guðmundssonar gerlafræðings, eignaðist landið áhöld þau, sem hann hafði við gerlarannsóknir sínar, og voru þau þá flutt í efnarannsóknarstofuna, og eru þau því geymd þar nú, án þess að hægt sje að nota þau, því að stofan hefir engum starfskröftum á að skipa til þess. Þannig er þá ástandið með efnarannsóknarstofu ríkisins.

Þá er rannsóknarstofa háskólans. Hún á sömuleiðis við mjög erfið kjör að búa hvað húsnæði snertir. Hún er eins og kunnugt er aðallega í þjónustu heilbrigðismálanna. Var upphaflega ætlast til þess, að hún hefði með höndum sjálfstæðar vísindalegar rannsóknir, en úr því hefir ekki getað orðið sökum þess, hve forstöðumaðurinn hefir haft mikið að gera við heilbrigðismálin. Stofnun þessi er að mörgu leyti ljelega útbúin, og eins og jeg tók fram áðan, mjög illa sett með húsnæði; voru þó gerðar töluverðar umbætur á því fyrir 2 eða 3 árum síðan. Af þessu, sem jeg nú þegar hefi sagt, er það ljóst, að húsnæði það, sem þessar stofnanir hafa nú, getur ekki verið til frambúðar, og að yfirleitt sje svo mörgu áfátt við þær, að þó ekki liggi fyrir að bæta við þær nýjum verkefnum, þá verði ekki hjá því komist að bæta úr ágöllunum, og þá helst með því að setja samfelda löggjöf um þessi efni. Það væri vitanlega æskilegast að sameina þessar þrjár stofnanir: efnarannsóknarstofu ríkisins, rannsóknarstofu háskólans og hina fyrirhuguðu rannsóknarstofu fyrir atvinnuvegina, í eina stofnun. En að sjálfsögðu þyrfti þá að koma upp góðu og fullkomnu húsnæði fyrir hana. Þrátt fyrir þetta hefi jeg þó ekki sjeð mjer fært að koma með brtt. við frv. um þessa hluti, þar sem líka stjórnin hefir gefið yfirlýsingu um það, að heimildarlög þau, sem hjer eru til umræðu, verði ekki notuð til annars en að koma á fót rannsókn á búfjársjúkdómum, sem hefði húsaskjól hjá Búnaðarfjelagi Íslands. Og jeg lít svo á, að slíkt gæti orðið að gagni sem byrjun, ef sjerfræðingur á þeim sviðum verður fenginn til þess að standa fyrir rannsóknunum. Jeg er líka þeirrar skoðunar, að rjett sje að beina slíkri starfsemi inn í landið, og vil því meðal annars af þeim ástæðum ekki vera á móti frv., eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hæstv. atvmrh. En jeg vil leiða athygli að því, að eins og nú standa sakir hafa allar gerlarannsóknir fallið niður, og jeg tel ekki rjett að láta svo vera til langframa, því að mjer skilst, að gerlarannsóknirnar sjeu óhjákvæmilegur liður í þeirri starfsemi, sem frv. stefnir að, þar sem tilbúningur sumra þeirra lyfja, sem nota þarf við rannsóknir búfjársjúkdómanna, er einmitt verk, sem heyrir undir gerlafræðina.

Jeg hefi helst hugsað mjer að sitja hjá við atkvgr. um frv., þó að jeg hefði ljeð því atkvæði mitt að komast gegnum deildina, ef þess hefði þurft.

Vil jeg svo láta það vera mína síðustu ósk í þessu máli, að stjórnin taki til yfirvegunar, á hvern hátt hægt verði að koma sem bestu skipulagi á allar þær þrjár stofnanir, sem jeg nú hefi minst á.