22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

92. mál, berklavarnir

Flm. (Ingvar Pálmason):

Eins og frv. þetta ber með sjer, er það flutt að beiðni landsstj. og samið að tilhlutun hennar. Það er kunnara en frá þurfi að skýra, að kostnaður ríkissjóðs af berklavörnum fer árlega vaxandi, og er frv. þetta tilraun til að draga að einhverju leyti úr þeim gífurlega kostnaði. Er það aðallega á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að sjúklingar þeir, sem læknar telja vinnufæra, sjeu látnir vinna, en auðvitað er það ekki meiningin, að vinnan geti haft áhrif á líðan eða heilsu sjúklinganna til hins lakara, enda vinni þeir aðeins þá vinnu, er þeir eru færir um að dómi læknis. Vinna getur einnig verið til bóta heilsu sjúklinganna, ef allrar varúðar er gætt.

Hitt aðalatriði frv. er það, að ríkisstj. semji við vissar stofnanir um ljóslækningar þessara sjúklinga, og er ekki ósennilegt, að það geti haft töluverðan sparnað í för með sjer. Auk þess má benda á það, að með frv. þessu er stj. hvött til þess að hafa jafnan vakandi eftirlit með því, að sparað sje eins mikið og hægt er á þessu sviði, án þess að hjer sje á nokkurn hátt reynt að rýra gagnsemi berklavarnalaganna.

Vona jeg, að hv. deild greiði fyrir máli þessu til n., sem síðan mun taka málið til ítarlegrar athugunar. Hafa mjer nýlega borist fleiri plögg, sem upplýsa þetta mál betur, og mun jeg að sjálfsögðu láta þau nefndinni í tje. Sje jeg svo ekki ástæðu til þess að hafa framsöguræðu lengri, en vænti þess, að málið fái að ganga til allshn.