22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

92. mál, berklavarnir

Halldór Steinsson:

Það er alveg rjett hjá hv. flm. þessa máls, að fullkomin ástæða er til þess að reyna að draga eitthvað úr hinum mikla kostnaði, er orðið hefir við berklavarnir hjer á landi. Með 1. lið frv. er sýnd viðleitni í þá átt, með því að skylda sjúklinga þá, er að læknisráði eru þess færir, að vinna og ljetta þannig dálítið undir með sjálfum sjer og draga úr þeim kostnaði, er ríkissjóður greiðir árlega til berklavarna. Þó fanst mjer eitt vanta í grg. frv., svo og framsöguræðu hv. flm., að eigi er gefin nein bending um það, hvort slík vinna sje fyrir hendi á þessum hælum. Hygg jeg, að á Vífilsstöðum sjeu slík verkefni ekki nægileg, nema þau verði sköpuð, og má vera, að það hafi vakað fyrir hv. flm. og hæstv. stj. að gera það. Mætti t. d. vel hugsa sjer það, að sjúklingar ynnu að ræktun lands í kringum hælið.

Um innanhússtörf er öðru máli að gegna; þau eru ekki svo mikil, að neinn verulegan sparnað leiddi af því, að sjúklingar tækju þátt í þeim, enda yrði að hafa fast starfsfólk til þeirra starfa eigi að síður. Hinsvegar er líklegt, ef heilsuhæli verða reist víðar á landinu, að hægt væri að haga fyrirkomulaginu þannig, að vinnufærir sjúklingar gætu stundað þar vinnu, eftir því sem heilsa leyfði.

En jeg felli mig ekki við síðari hluta frv. í fyrri málsgr. 3. brtt. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Rjett er, að stjórnarráðið nefni til sjerstaka lækna, einn eða fleiri í hverjum landsfjórðungi, til þess að meta og gefa vottorð um það, hvort sjúklingur þarfnast sjúkrahússeða hælisvistar og sje styrkhæfur vegna sjúkdóms síns. Skal til þess starfa velja þá lækna, sem ætla má, að hafi besta þekkingu í þeim efnum og best tæki til slíkra rannsókna“.

Mjer finst, að ekki geti komið til mála að fela aðeins einum lækni í hverjum landsfjórðungi að úrskurða það, hvort sjúklingur þurfi hælisvist eða ekki. Þennan sjúkdóm getur borið svo bráðan að, að sjúklingi sje með öllu ókleift að nálgast þennan eina lækni. Það er sjálfsagt að byggja á dómi hjeraðslækna í því efni; þeir eru kunnastir sjúklingum sínum og hafa oft fylgst með líðan þeirra árum saman, og eru því á allan hátt færastir að kveða upp úrskurð um þörf sjúklings á hælisvist.

Þá virðist mjer ákvæði síðari málsgr. of þröngt. Það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarráðið skal og kveða á um það, hverjar ljóslækningastofnanir taki til meðferðar þá sjúklinga, er ljóslækninga þurfa og styrks njóta úr ríkissjóði“.

Þetta er auðvitað borið fram í sparnaðarskyni, og mætti eflaust spara á þessu, en mjer finst hjer of langt farið inn á sjálfsákvörðunar rjett hinna fátæku sjúklinga, er styrkþurfa eru, og tel jeg varhugavert að neita sjúklingum um að vitja þeirra lækna, er þeir helst kjósa.

Hinsvegar er hitt ákvæði síðustu málsgr. gott, það sem sje, að stjórnarráðið semji fyrirfram við sjúkrahús og slíkar stofnanir um kostnað af dvöl og lækningu styrkhæfra sjúklinga. — Mjer finst frv. stefna í rjetta átt, einkum ákvæðið um vinnuna, en það þarf mikillar lagfæringar við til þess að það geti talist frambærilegt.