22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

92. mál, berklavarnir

Jón Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. hjelt því fram, að sanngjarnt væri að hafa sama taxta við berklaveikislækningar fyrir embættislausa lækna og aðra lækna. Jeg sagði ekkert um það, að ekki væri sanngjarnt að hafa sama taxtann fyrir alla lækna, en jeg vil halda því fram, að ef settur er taxti fyrir það, sem ríkið borgar, þá á að greiða hann hvaða lækni sem notaður er. Sem betur fer er allur fjöldi þeirra berklasjúklinga, sem fá ókeypis hælisvist, þess megnugur að geta greitt lítilsháttar mismun, ef til kæmi, frá sjálfum sjer, mismun á taxta þess læknis, sem sjúklingurinn leitar til, og hinum lögskipaða taxta ríkisins. Þessi mismunur væri í flestum tilfellum svo lítið, að auðvelt væri fyrir sjúklingana að greiða hann, þótt þeir ættu ómögulegt með að bera allan kostnaðinn sjálfir. Er það mjög ósanngjarnt að neita nokkrum sjúklingi um þann skoðunarkostnað, sem ríkið vill borga sínum embættislækni, ef sjúklingurinn vill fremur leita til annars læknis og tekur að sjer að borga mismuninn. Hæstv. stj. gæti hæglega komið því í kring, að samið væri við læknana um svo sanngjarnan taxta í garð sjúklinganna, að enginn þyrfti undan að kvarta.

Hæstv. dómsmrh. vildi gera gaman úr því, sem jeg sagði um eftirlit hjeraðslæknanna. Jeg átti við það, að hjeraðslæknarnir ættu að vera hæfir til þess að hafa eftirlit með ljóslækningastofum, sem aðrir læknar setja upp í umdæmum þeirra, en eftirlitið með hjeraðslæknunum sjálfum veit hæstv. dómsmrh. hvar er eða á að vera. Hvað ljóslækningastofunni í Hafnarfirði viðvíkur, þá tel jeg það ekkert þrekvirki, þó að eftirlit með henni væri haft hjeðan úr Reykjavík, þar sem hún er alveg undir handarjaðrinum á heilbrigðisstjórninni.

Hæstv. dómsmrh. þótti ilt, ef samkepnisstofnun kæmi hjer upp við hliðina á ljóslækningastofu ríkisins. Taldi hann óhæfu, ef slík stofnun mætti lækna berklaveika menn eftir þeim töxtum, sem ríkið setur. Jeg lít alt öðruvísi á þetta mál. Geislalækningastofan hjer í bænum hefir ekki komist af nema með miklum ríkissjóðsstyrk á hverju ári. Gæti nú einstakur maður rekið slíka stofnun hallalaust án annara fríðinda en að fá að lækna sjúklinga, sem ríkið borgar fyrir eftir taxta, sem ekki er óhæfilega hár, — hvað sýnir þá þetta? Þá væri auðsjeð, að ríkisreksturinn væri í einhverjum ólestri, ef mikil brögð væru að því, að slíkar stofnanir kæmu upp við hlið hinnar og gætu þrifist án nokkurs styrks frá ríkinu. Það væri þó gagnlegt fyrir ríkið til þess að sýna, hvað það getur, ef samkepnin er annarsvegar. Tel jeg gott og sjálfsagt, ef samkepnin fær að komast að, því að þá mundi verða vandlega athugað, hvort ekki væri eitthvað bogið við ríkisreksturinn. Samkepnina má ekki útiloka; hún er sú sanna lífæð framkvæmdanna og gerir það að verkum, að hið lífvænlega lifir, en hið fúna og feyskna fellur úr sögunni. Ef ríkið getur ekki rekið ljóslækningastofu á samkepnisgrundvelli, þá á ríkisrekstur á því sviði engan rjett á sjer.

Hvort sem hæstv. dómsmrh. líkar betur eða ver, mun jeg halda áfram að tala um frelsið, ekki síst atvinnufrelsið og athafnafrelsi einstaklingsins og frelsi sjúklinganna til þess að velja sjer lækni eftir vild. Mun jeg ætíð fylgja öllu frelsi og sjálfsákvörðunarrjetti einstaklinga, enda þótt jeg eigi ekki von á, að hægt verði að koma hæstv. dómsmrh. í skilning um það, að frelsið er mönnunum mikils virði og nauðsynlegt til þroska og til þess að fullnægja þeirri frelsisþrá, sem þeim er meðsköpuð.

Hæstv. dómsmrh. talaði um það, að sjúkrasamlög leyfðu meðlimum sínum ekki valfrelsi, þegar búið væri að semja við sjerstakan lækni. Hvað sem því líður, þá er það víst, að í sjúkrasamlagi er enginn þvingaður til að vera, og ef stjórn samlagsins er búin að semja við sjerstakan lækni, þá geta hinir óánægðu, sem ekki hafa trú á honum, gengið úr því og myndað sjerstakt sjúkrasamlag utan um annan lækni. Þessu er annan veg háttað með berklasjúklingana, og eru þeir engan veginn sambærilegir við samlagsmeðlimi. Berklasjúklingar eru yfirleitt svo fátækir, að þeir eiga ómögulegt með að velja um lækni eða ljóslækningastofu, svo framarlega sem ríkið einskorðar styrk sinn við sjerstakar stofnanir og einstaka menn. Þessir aumingjar geta því engan veginn notið þess frelsis, sem meðlimir sjúkrasamlaganna hafa, og er sannarlega ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, ef nú á að fara að beita þá ofríki.