22.03.1929
Efri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2644 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

92. mál, berklavarnir

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg heyrði það á síðari ræðu hv. 3. landsk., að honum er ekki kunnugt um samninga, sem hans eigin stj. gerði um þessi mál. Ætla jeg þó ekki að lasta hann fyrir það, þar sem þetta heyrði aldrei undir hans deild í stjórnarráðinu. Hann taldi ekki nauðsynlegt að greiða öllum eftir sama taxta, hvort sem þeir væru embættislæknar eða ekki, en hv. 1. þm. Skagf., sem hafði þessi mál þá til meðferðar, sagði, að það ætti að greiða öllum jafnt. Ef svo væri haldið áfram, þá gæti svo farið, að sjerfræðingarnir, sem heimta greiðslu eftir sínum sjerstaka taxta, fengjust ekki til þess að koma nálægt þessu, og gæti það orðið sjerlega bagalegt, ef um uppskurði eða annað slíkt væri að ræða.

Út frá þessu frelsisskrafi hv. 3. landsk. vil jeg benda á, að allmargir læknar líta svo á, að þegar landsspítalinn sje kominn upp, fái þeir allir rjett til þess að leggja sína sjúklinga þar inn og stunda þá. Þetta kemur auðvitað ekki til mála, og er alveg sama, hvaða stj. fer þá með völd. Það getur engin stj. verið svo aum, að hún hleypi þar að öðrum en föstum starfsmönnum ríkisins. Þá má líka gera ráð fyrir, að allir sjúklingar finni sig skuldbundna til þess að fara þangað, þar sem bestu tækin og duglegustu læknarnir verða. Hvaða óvitlausum manni skyldi detta í hug að láta gera á sjer uppskurð í baðstofunni í Landakoti, þegar landsspítalinn er kominn upp? Jeg býst við, að hv. 3. landsk. geti ekki hugsað sjer frelsi í þessum efnum öðruvísi en svo, að ríkið færi að borga öðrum læknum en við spítalann vinna fyrir þau verk, sem embættislæknar ríkisins áttu að gera. Hljóta allir að sjá, hvað þetta er mikil fjarstæða.

Jeg sagði í fyrri ræðu minni, að meðlimir sjúkrasamlaga hefðu ekki valfrelsi um lækna eða annað fremur en berklasjúklingar. Hv. 3. landsk. varð að játa það, en sagði, að þeir óánægðu gætu bara stofnað annað samlag. Það er nú ef til vill hægra sagt en gert. Get jeg t. d. sagt hv. þm. það, að núna alveg nýlega kom til mín form. í sjúkrasamlaginu hjer í bænum og kvartaði undan sjerfræðingunum; þeir hefðu svo háa taxta og væru eiginlega alveg að sprengja samlagið. Er það alstaðar sama sagan. Vildi hann fá hjálp stj. í þessu máli, en hún gat því miður ekkert hjálpað.

Í sambandi við frelsisyfirlýsingu hv. 3. landsk. vil jeg benda á, að það var hann sjálfur, sem barðist harðast á móti Kristneshælinu. Kristneshælið var þó gert til þess að meira rúm yrði um berklasjúkl. og til þess að holl samkepni gæti komið milli tveggja hæla, en hv. 3. landsk. vildi með sinni mótstöðu halda í einn stað, til þess að hægra væri að kúga sjúklingana og beita þá ofríki.