14.05.1929
Efri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi ekki mikið að segja út af því, er hv. 3. landsk. mælti. Það er öllum vitanlegt, hvers vegna þetta frv. er fram komið. Það er aðeins til þess að setja í eitt þær heimildir, sem þingið hefir áður gefið stj. til þess að taka lán til ýmsra framkvæmda. Hv. 3. landsk. veit vel, að þegar taka þarf lán utanlands, þá er það til mikilla óþæginda, að lántökuheimildirnar sjeu í ýmsum lögum, enda er venja að hafa þetta svo hjá Öðrum bjóðum, er gefa svipaðar heimildir. Hjer er aðeins um form að ræða og engu bætt við, heldur aðeins teknar saman þær heimildir, er nú liggja fyrir um að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs,

Jeg sje ekki ástæðu til þess að deila um það við hv. 3. landsk., hvort hyggilega sje stofnað til hinna einstöku lánsheimilda. Það má vitanlega altaf deila um það, því menn líta svo misjöfnum augum á hlutina. En jeg vil benda á það, að þó þetta fje yrði alt tekið að láni, þá mundi það aðeins hrökkva til þess að fullnægja 3 stærstu lánsheimildunum, sem veittar hafa verið, nefnil. Byggingar- og landnámssjóði, Landsbankanum og veðdeild Landsbankans. Með þessu er þó ekki sagt, að fjeð verði eingöngu notað til þessara framkvæmda; sennilega verður veðdeildin að víkja fyrir öðru nauðsynlegra.

Jeg get ekkert sagt um það, hve hátt lán verði tekið, eða hvort það muni verða að svo stöddu. En ef tækifæri gefst milli þinga til þess að komast að sæmilegum lánskjörum, þá er mikil fyrirgreiðsla að hafa heimildina. Áleit jeg því rjett að telja upp flestar þær heimildir, er gefnar hafa verið, án þess þó að það sje á nokkurn hátt bundið við það að nota fje til alls þess, er talið er upp í 2. gr.

Það má ef til vill deila um það, hvort rjett sje að taka lán. En jeg fæ ekki sjeð, að þau fyrirtæki og stofnanir, sem ákveðið er í lögum að setja upp fyrir lánsfje, geti tekið til starfa nema lán sje tekið, enda beinlínis til þess ætlast af þinginu. Og jeg verð að líta svo á, að stj. beri að gera ráðstafanir til þess, að framfylgt verði þeim lögum, er þingið hefir afgreitt.